Vegaframkvæmdir: engar fréttir af útboðum

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Ekki er búið að taka ákvörðun um tímasetningu næstu útboða vegaframkvæmda á Vestfjörðum en þau eru í undirbúningi og skoðun segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í svari við fyrirspurn Bæjarins besta. Leitað var upplýsinga um næstu útboð um framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit. Einn áfangi er eftir á Dynjandisheiði, síðustu 8 km norðan megin á heiðinni niður Dynjandisdalinn í Dynjandisvoginn og í Gufudalssveit á eftir að bjóða út smíði tveggja brúa og vegfyllinga að þeim.

Í marsmánuði fengust þau svör að líklegt væri að lokaáfangi á Dynjandisheiðinni verði boðinn út á árinu þótt ekki væri hægt að lofa neinu. Þegar hefur verið gefið út að lokaáfangi í Gufudalssveit verði boðinn út á þessu ári.

Samgönguáætlun ekki á dagskrá

Tillaga ríkisstjórnarinnar um samgönguáætlun fyrir árin 2024 – 2038 var lögð fram á Alþingi 6. október 2023 og var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar þann 10. október 2023 og hefur verið þar til umfjöllunar í hartnær 8 mánuði.

Málið var síðast á dagskrá nefndarinnar 21. maí sl. Síðan hafa verið haldnir þrír fundir án þess að málið hafi verið á dagskrá. Enn verður fundur í nenfdinni í dag, fimmtudag og er samgönguáætlunin ekki á dagskránni.

Formaður nefndarinnar er Bjarni Jónsson (V), þingmaður Norðvesturkjördæmis. Halla Signý Kristjánsdóttir (B) er einnig í nefndinni og sagðist hún telja að þingið lyki ekki störfum fyrir sumarið án þess að ljúka afgreiðslu samgönguáætlunarinnar. Þar verða teknar ákvarðanir um framkvæmdir næstu ára í samgöngumálum, svo sem vegagerð, jarðgangagerð og hafnargerð.

DEILA