Heilbrigðisstofnun Vestfjarða: stefndi í 300 m.kr. halla

Fram kemur í ársskýrslu Heilrbigðisstofnunar Vestfjarða fyrir 2023 að áður en fjáraukalög og aðrar tilfærslur komu til stefndi reksturinn í rúman 300 milljóna króna halla eða sem nemur 8% af útgjöldunum. Rekja mátti stóran hluta hallarekstrarins til vanfjármögnunar á hjúkrunarheimilunum.  Með aukafjárveitingu náðist að snúa stöðunni við og endaði afkoma ársins jákvæð um 58,6 milljónir króna.

Heildarfjárveitingar ríkisins til stofnunarinnar voru liðlega 3.700 m.kr. og tekjur urðu alls 4.037 m.kr. þegar bætt hefur verið við seldri þjónustu og ýmsum tekjum. Gjöld hækkuðu á milli ára um 374 milljónir eða rúm 10%. Á sama tíma hækkuðu tekjur örlítið meira eða um 412 milljónir króna eða 11%. Verðbólga árið 2023 var tæp 9% að meðaltali. Vægi launakostnaðar var 70,7% og hækkaði launakostnaður um 217 milljónir milli ára eða um 8,4%. Meðalfjöldi stöðugilda er 226,7.

Breytingar á fyrirkomulagi ræstinga

Í ársskýrslunni er greint frá breytingum á ræstingum sem urðu á árinu. Ræstingum er sinnt af starfsfólki stofnunarinnar á öllum starfsstöðvum utan Ísafjarðar. Fyrirtækið Massi þrif hefur sinnt hluta ræstinga á Ísafirði samkvæmt samningi sem teygir sig aftur til aldamóta. Tilefni var til að endurskoða það fyrirkomulag sem var úr sér gengið og var samningnum við Massa þrif því sagt upp á útmánuðum 2023 með gildistíma uppsagnar 31. ágúst. Í kjölfarið voru ræstingar í aðalbyggingu og Eyri boðnar út saman, í samræmi við lög um opinber innkaup. Ríkiskaup aðstoðuðu við undirbúning útboðsins. Eitt tilboð barst, frá Sólar. Það uppfyllti öll skilyrði útboðsins og var talsvert undir kostnaðaráætlun stofnunarinnar. Fyrirtækið sinnti þá þegar heilbrigðisþrifum fyrir meðal annarra Landspítala Fossvogi og fjölmörg hjúkrunarheimili.

Sólar tók við ræstingunni 1. október. Ræstingardeildin í fyrri mynd var lögð niður og var breytingin vel kynnt í tíma fyrir starfsfólki og fulltrúm Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Starfsfólki deilarinnar var öllum boðið að flytjast til í starfi og mannauðsstjóri hélt utan um lausnir sem hentuðu hverjum og einum.

DEILA