Stækkun Mjólkárvirkjunar ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að stækkun Mjólkárvirkjunar, Ísafjarðarbæ, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021.

Fyrirhuguð framkvæmd felst m.a. í hækkun núverandi stíflu við Tangavatn en vatnsmiðlun úr Tangavatni hófst árið 1975 þegar 8,6 m há stífla var byggð í afrennsli vatnsins. Hækka á núverandi stíflu við vatnið um þrjá metra og auka þannig miðlunargetu þess.

Stíflan við Tangavatn er með 60m löngu steyptu yfirfalli en lengd hennar er um 100 m. Eftir breytingu verður yfirfallið um 100 m langt og lengd stíflu um 230 m.

Einnig er gert ráð fyrir að virkja afrennsli Tangavatns með allt að 0,5 MW virkjun við Hólmavatn sem er nú þegar nýtt sem uppistöðulón. Lögð verður um 700 m löng niðurgrafin þrýstipípa frá Tangavatni og að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn. Virkjað rennsliverður allt að 1,0 m3/s.

Með framkvæmdinni næst betri nýting á vatnasviði Mjólkár.

DEILA