Vikuviðtalið: Magnús Bjarnason

Magnús Þór Bjarnason heiti ég og er fæddur á Ísafirði árið 1975 og ól æskuár mín að mestu leyti  hér á Ísafirði. Til að klára ættfræðina þá er móðir mín Rósa Magnúsdóttir frá Ísafirði og faðir minn er Bjarni Steingrímsson frá Reyðarfirði, en þau skildu þegar ég var ungabarn. Stjúpfaðir minn er svo Guðbjartur Jónsson frá Ísafirði. Konan mín er Auður Dóra Franklín frá Akureyri. Við eigum þrjár dætur saman þær Rósu Maríu (17 ára) , Sylvíu Rán (15 ára) og Katla Rut (8 ára). Þrátt fyrir tengingar víðsvegar um landið, þá kalla ég mig nú Vest- og Ísfirðing. En í raun er eina skilyrðið til að teljast Ísfirðingur er að vilja það.

Frá Grunnskóla Ísafjarðar lá leiðinn í framhaldsnám í Fjölbraut í Breiðholti. Í skólafríum var svo unnið í Norðurtanganum, þeim ágæta vinnustað sem kenndi manni svo ótrúlega margt. Eftir stúdentspróf, lá leiðin í BS nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Þegar því námi lauk hafði ég tekið saman við Auði og við fórum saman til Svíþjóðar í nám, hún í lífeindafræði og ég í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Gautaborg.

Starfsferillinn hefur verið fjölbreyttur og ég hef komið víða við, nokkuð sem kemur sér mjög vel við núverandi starf mitt hjá Vestfjarðastofu, þar sem ég starfa sem verkefnastjóri við nýsköpun og fjárfestingar. Það eru spennandi tímar runnir í garð á Vestfjörðum, eftir tíma stöðnunar. Við erum að sjá kröftugan vöxt um Vestfirði í kjölfarið á sjókvíaeldi og vaxandi ferðamennsku. Það er í raun athyglisvert að sjá hvernig þessar tvær greinar eru að vaxa samhliða. Vestfjarðastofa er vinnustaður með fjölbreyttum og spennandi verkefnum.  Að sjá samfélaginu, frumkvöðlum og fyrirtækjum ganga vel, er nokkuð sem gleður mjög.

Þegar ég flutti aftur til Ísafjarða árið 2013 þá tilkynnti Muggi mér það að samfélag eins og Ísafjörður virkar ekki nema allir taki þátt í því. Ég tók þetta til mín og hef reynt að vera sem virkastur í tómstundastarfi bæjarins. Fyrst sem stjórnarmaður og gjaldkeri blakfélagsinns, en ég hef tekið þátt í 8 öldungarmótum í blaki, því þrátt fyrir takmarkaða getu þá er þetta ótrúlega skemmtilegt sport. Svo er ég gjaldkeri Sæfara, en kayakróður er sport sem fer vel með bakið og jafnvægið, ásamt því hvað nálægðin við sjóinn er hreinsandi. Nú seinast sem meðstjórnandi í HSV til næstu tveggja ára, en framundan er mikið starf hjá stjórn HSV að móta starf sitt án framkvæmdarstjóra.

Það sem fjölskyldunni þykir skemmtilegast að gera saman, eru kósý kvöld og svo að ferðast saman. Við höfum verið dugleg að ferðast um landið og erlendis að heimsækja ættingja og vini. Þegar stelpurnar eldast þá mun þessum stundum fækka og um að gera sem mest að því meðan færi er.

DEILA