Sjö umsóknir um Byggðastofnunarkvótann

Alls bárust sjö umsóknir um Byggðastofnunarkvótann í fimm vestfirskum byggðarlögum sem auglýstur var í byrjun maí.

Ein umsókn barst um kvótann á Þingeyri, Suðureyri, Drangsnesi og Hólmavík en þrjár umsóknir eru um kvótann á Tálknafirði.

Samtals er um allt að 2.200 þorskígildistonn að ræða, 500 tonn til Þingeyrar og einnig til Suðureyrar. Til Tálknafjarðar fara allt að 400 þorksígildistonn og 300 tonn til Drangsness og 500 tonn til Hólmavíkur.

Í tilkynningu frá Byggðastofnun segir að yfirferð umsókna sé hafin og að mikilvægt sé að ljúka afgreiðslu þeirra og samningagerð í tíma áður en nýtt fiskveiðiár hefst og núgildandi samningar renna út.  Nýir samningar munu gilda um fiskveiðiárin 2024/2025, 2025/2026, 2026/2027, 2027/2028, 2028/2029 og 2029/2030.

Byggðastofnun ráðstafar einnig 2.050 þorskígildistonnum til sex byggðarlaga á Norður- og Austurlandi.

DEILA