Bolungavík: sjómannadagshátíðahöldin hefjast á morgun

Þriggja daga fjölbreytt dagskrá verður í Bolungavík um sjómannadagshelgina. Hátíðahöldin hefjast á morgun, föstudag með dorgveiðikeppni og tónlistarhátíðinni Þorskurinn 2024 sem verður í Einarshúsi. Annað kvöld verður Vestfjarðamótið í sjómanni á Verbúðinni og má búast við að þar verði tekist hraustlega á.

Á laugardaginn verða helstu skemmtiatriðin. Dagurinn hefst með hátíðasiglingu út á Djúpið. Eftir hádegið verður sjómannadagskrá björgunarsveitarinnar Ernis við höfnina með fjölbreyttum atriðum og hátíðarkvöldverður í Félagsheimilinu um kvöldið. Dagskránni lýkur með sjómannadagsballi í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Óðríki.

Á sunnudaginn, sjálfan sjómannadaginn verður hópganga og hátíðarmessa í Hólskirkju og að guðsþjónustunni lokinni verður gengið í Grundarhólskirkjugarð og lagðir blómsveigar að minnismerkjum sjómanna í garðinum.

Slysavarnadeildin Ásgerður verður með kaffisamsæti í boði Jakobs Valgeirs ehf í félagsheimili Bolungarvíkur.

sjómannadagurinn Bolungarvík

DEILA