Ísafjörður: Skólaslit Tónlistarskólans 2024 í gær

Bergþór Pálsson við skólaslitin.

Tónlistarskóla Ísafjarðar var slitið við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju í dag. Bergþór Pálsson skólastjóri sagði það hafa verið mikið gæfuspor að gerast Ísfirðingur fyrir fjórum árum, móttökurnar og kynnin af þessu kraftmikla og fallega samfélagi hefðu verið einstaklega gefandi og þeir Albert færu því héðan ekki aðeins með þakklæti fyrir vináttuna í huga, heldur líka söknuð í brjósti. Þeir væru þó stoltir af því að skila góðu búi til nýs skólastjóra. Þá fór hann yfir nokkur atriði sem upp úr stæðu í vetur, hádegistónleikana með fyrrverandi nemendum skólans, Heimilistóna, ferð Skólakórsins á kóramót í Danmörku og síðast en ekki síst uppsetningu á Fiðlaranum á þakinu ásamt Litla leikklúbbnum.

Viðurkenningar voru veittar fyrir góða ástundun í útibúum, grunnpróf í tónfræði og hljóðfæraleik, Ísfirðingaverðlaunin hlaut Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, en hún tók glæsilegt miðpróf nú í vor, spilar bæði á flautu og píanó, spilaði með glæsibrag á Nótunni á Akranesi og er öflugur liðsmaður lúðrasveitarinnar. Aðalverðlaun HG hlaut Matilda Mäekalle, en hún tekur framhaldspróf á næsta ári, spilar á píanó, trompet, bassa, spilaði sömuleiðis með glæsibrag á Nótunni á Akranesi, einnig spilaði hún á hljómborð í Fiðlaranum á þakinu.

Beáta Joó hlaut heiðursverðlaun Tónlistarskólans fyrir störf sín. MEIRA HÉR.

Ýmis tónlistaratriði voru á dagskránni. Skólalúðrasveitin hóf hátíðina með þema úr Jesus Christ Superstar, Guðrún Hrafnhildur Steinþórsdóttir, handhafi Ísfirðingaverðlaunanna, lék Serenöðu eftir Moritz Moszkowski, Matilda Mäekalle, handhafi aðalverðlaunanna sem veitt eru af HG, lék Rustle of Spring eftir Christian Sinding. Hátíðargestir sungu saman Ó blessuð vertu sumarsól. Í lokin söng Bergþór My Way með Skólalúðrasveitinni.

Myndirnar tók Haukur Sigurðsson.

Beáta Joó hlaut heiðursverðlaun Tónlistarskólans fyrir störf sín.

Matilda Mäekalle, handhafi aðalverðlaunanna sem veitt eru af HG, lék Rustle of Spring eftir Christian Sinding.
DEILA