Strandabyggð: 240 m.kr. í viðgerðir á grunnskólanum á Hólmavík

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Viðamiklar endurbætur standa yfir á húsnæði Grunnskólans á Hólmavík eftir að mygla greindist í húsnæðinu. Áætlað er að framkvæmdakostnaður 2023 og 2024 verði samtals um 240 m.kr.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri var beðin um nánari upplýsingar um þennan mikla kostnað. Svar hans fylgir hér:

„Þegar vinna við endurbætur á yngri hluta grunnskólans hófust, var í raun margt óljóst, en það lá þó fyrir að það þyrfti að gera yngri hlutann nánast fokheldan.  Það var gert þannig að ílögn á gólfum var nánast öll brotin upp, settar hitalagnir í gólf og flotað,  skipt var um flesta glugga og gert við aðra, sumir gluggar stækkaðir, farið í hönnun brunakerfis og uppsetningu „sprinkler“ kerfis, loftræstikerfi var hannað og skipt um allar raflagnir.  Ný ljós sem taka mið af nútíma stöðlum verða sett í og eins var alrými skólans endurhannað m.t.t. samverusvæðis, eldhúsi breytt og salernisaðstaða endurhönnuð.  Áfram verður aðstaða fyrir hannyrða og smíðakennslu sem og félagsstarf eldri borgara.  Tónlistarskólinn heldur sínu rými og var sett hurð á útvegg þar bæði sem flóttaleið og einnig sem leið í upphitaða stétt sem verður gerð þar fyrir utan.  Allar flóttaleiðir voru endurskoðaðar sem t.d. kallaði á stækkun glugga og uppsetningu stiga utan á skólanum.  Skipt var um drenlögn og nær allur skólinn klæddur með dúk og nýjar drenlagnir lagðar.  Allur búnaður var keyptur nýr; borð, stólar, skápar og er í einu og öllu stuðst við nútímakröfur og viðmið.  Skólinn verður allur málaður og þurfti að fara í talsverða múr- og sparslvinnu vegna þess.  Einnig verður dúkur lagður á öll gólf og flísar í anddyri.  Glerhurðir aðskilja vinnurými kennara sem og inngang í skólastofur. Fyrir vikið verður öll vinnuaðstaða mun betri og bjartari. Fram hafa komið kostnaðarliðir, viðbætur og breytingar sem ekki lágu fyrir í upphafi né við fjárhagsáætlanagerð fyrir 2024.  Var t.d. ákveðið að hætta við að klæða dúk í loftin og setja þess í stað heraklitplötur.  Loftið er að auki einangrað.  Allt tekur þetta mið af viðmiðum um hljóðvist.  Við hönnun loftræstikerfis, sem aldrei hefur verið í byggingunni, þurfti að bora fjölda gata í loft skólans.  Einnig fór mikill tími í alla lagnavinnu hvað varðar rafmagn og vatn.  Vaskur er í hverri skólastofu.

Í vor voru tekin myglusýni í yngri hluta skólans, þar sem þessi vinna fer öll fram.  Öll þau sýni komu vel út og höfðu starfsmenn EFLU orð á að vel væri staðið að öllum framkvæmdum sveitarfélagsins við þessa endurgerð skólans.  Að þessu verki hafa komið starfsmenn sveitarfélagsins og fjöldi verktaka, bæði heimamanna og utan sveitarfélagsins og allir hafa lagst á eitt um að skila góðri og vandaðri vinnu.  Það hefur skilað sér.  Verkfræðistofan VERKÍS og Koa arkitektar á Ísafirði hafa sinnt verkefnastjórnun og faglegri ráðgjöf og hönnun, auk undirverktaka þeirra.

Strandabyggð eins og um helmingur sveitarfélaga á Íslandi, stendur í endurbótum vegna myglu í grunnskólanum.  Grunnskólinn á Hólmavík er í raun tvær einingar og er nú unnið að endurgerð yngri einingarinnar, sem þó er rúmlega fjörutíu ára.  Eldri einingin er rúmlega áttatíu ára.  Það er því verið að endurgera byggingar þess tíma þegar kröfur og viðmið voru með allt öðrum hætti en nú er.  Í allri þessari vinnu eru ótal óvissuþættir sem gera það að verkum að kostnaðaráætlanir standast ekki.  Það sem er mikilvægt í þessu ferli, ekki bara í Strandabyggð, heldur á landsvísu, er að taka saman þennan kostnað, alla kostnaðarliði, skrá niður alla óvissuþætti og þau frávik sem verða, þannig að hægt sé að gera einhvers konar gagnabanka sem hægt er að ganga í og koma í veg fyrir óþarfa kostnað í viðgerðum framtíðarinnar.  Það virðist því miður þannig, að mjög margar byggingar á Íslandi mygla.  Þekking á upphitun og loftræstingu bygginga er ekki almenn og því má búast við því að þessi vandi komi upp víðar í framtíðinni.“

Ég læt þetta duga, en ég mun taka þetta saman í formlegri pistil þegar þessu verki lýkur.  Það má vel nefna það hér, að ég spurðist fyrir um stuðning Jöfnunarsjóðs vegna þessa og þar var svarið þvert nei.  Vegna umfangs mygluvanda á landsvísu, mun Jöfnunarsjóður ekki styðja sveitarfélög fjárhagslega,  Þetta var rætt í tengslum við umræðu um svokallaðan „byggðapott“ sem verður settur á laggirnar, þegar (ekki ef) nýjar reglur um Jöfnunarsjóð verða innleiddar og skerðing af þeim sökum raungerist.  Fyrir Strandabyggð er þetta skerðing upp á amk 70 milljónir á næstu þremur árum.

Og auðvitað er það svo, í litlu sveitarfélagi eins og Strandabyggð, sem býr við mikla innviðaskuld, að svona stórt verkefni stoppar eða frestar öðrum mikilvægum verkefnum.

Grunnskólinn á Hólmavík.

Myndir: Þorgeir Pálsson.

DEILA