Bjarney Ingibjörg nýr skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði

Greint er frá ráðningunni á vefsúðu Tónlistarskólans á Ísafirði. Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Sem sex ára lítil hnáta hóf hún tónlistarnám í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Eftir stúdentspróf flutti hún til Reykjavíkur og hóf þar framhaldsnám og útskrifaðist með söngkennara og kórstjórnarpróf. Eftir tuttugu ára búsetu í Reykjavík þar sem hún starfaði sem söngkennari og kórstjóri flutti hún heim til Ísafjarðar.

Á Ísafirði hefur Bjarney starfað við tónlistarkennslu og stjórnað kórum, lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar en einnig stundaði hún framhaldsnám í söngkennslufræðum frá Complete Vocal Institude í Kaupmannahöfn. Sl.vor útskrifaðist Bjarney Ingibjörg með meistaragráðu í verkefnastjórnun, MPM, frá Háskólanum í Reykjavík.

Bjarney hefur sl.ár starfað sem verkefnastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða og er einnig verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið. Bjarney Ingibjörg hefur gaman af félagsstörfum og hefur m.a. starfað í stjórnum og nefndum Félags íslenskra söngvara, norrænu kórasamtökunum NORBUSANG og Félags íslenskra kórstjóra. Hún hefur brennandi áhuga á matargerð og prjónaskap en finnst best að knúsa ömmubörnin sem bráðum verða fimm.

DEILA