DRUMBUR

Drumbur er stuttvaxinn og þunnvaxinn fiskur með stuttan og ávalan haus. Augu eru stór. Neðri skoltur er aðeins styttri en sá efri. Tennur eru smáar og hvassar. Plógbein og gómbein eru tennt. Bakuggi byrjar rétt aftan við haus og er samvaxinn sporði og raufarugga. Ekki vottar fyrir sporði. Eyruggar eru stórir og bogadregnir og ná aftur fyrir fremri rætur bakugga. Kviðuggar eru tveir stuttir geislar hvor uggi og er innri geislinn lengri. Hreistur vantar og rák er tvöföld. Hér við land hefur veiðst 40 cm drumbur og gæti hann verið sá stærsti sem fengist hefur.

Litur er blágrár, stundum brúnleitur og uggar eru dökkir.

Drumbur fannst í fyrsta skipti á um 700 m dýpi sunnan Georgsbanka undan austurströnd Bandaríkjanna árið 1962. Síðan hefur hann m.a. veiðst suðaustur af Hvarfi við Grænland, við Ísland, Norðvestur-Írland og í Gíneuflóa við vestanverða Afríku.

Hér veiddist drumbur fyrst í maímánuði árið 1983 en þá fékkst einn 26,5 cm langur í humarvörpu á 178 – 212 m dýpi í Háfadjúpi. 1 júlí sama ár veiddist annar, 21 cm langur, einnig í humarvörpu, í Breiðamerkurdjúpi. Sá þriðji veiddist ekki fyrr en árið 1992 en síðan hafa einn eða fleiri veiðst árlega allt frá suðausturmiðum (Berufjarðarálshorn) vestur með suðurströndinni og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls og árið 1998 bárust 10 til rannsóknar á Hafrannsóknastofnun. Drumbar hafa veiðst hér við land á 183-824 m dýpi (en hann hefur veiðst niður á meira en 1000 m dýpi) og ýmist í flotvörpu eða botnvörpu. Þeir voru 22- 40 cm langir, sá lengsti veiddist á 192 m dýpi í mars árið 1997 við Berufjarðarálshorn.

Drumbur er miðsævis- og djúpfiskur sem er sennilega í slagtogi með stórum marglyttum. Hann gýtur seiðum.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

DEILA