Knattspyrnulið Vestra í Bestu deildinni gerði góða ferð í Vesturbæinn í Reykjavík á laugardaginn. Liðið mætti KR í Frostaskjólinu og greinilegt var að meiðsl settu mark sitt á liðið enda leikmannahópurinn ekki stór. Fyrri hálfleikur var erfiður Vestramönnum og KR var með 2:0 forystu að honum loknum.
Í síðari hálfleik gekk Vestra betur og um miðbik hálfleiksins komu tvö mörk með skömmu millibili og allt orðið jafnt. Fyrst vann Songani vítaspyrnu sem Vladimir Tufegdzic skoraði úr og svo gerði Pétur Bjarnason gott mark eftir hornspyrnu og jafnaði leikinn.
Eftir átta leiki er Vestri með 7 stig, tvo sigra, eitt jafntefli og fimm töp og situr í 10. sæti deildarinnar af tólf. KR er með 11 stig.
Frammistaðan er að vonum enda kemur liðið fremur illa undirbúið til leiks vegna aðstöðuleysis í samanburði við önnur lið. Unnið er að því að gera gervigrasvöllinn á Torfnesi, Kerecis völlinn leikhæfan og er ráðgert að fyrsti leikurinn verði á sjómannadaginn 2. júní gegn Stjörnunni. Fram til þessa hafa allir leikir verið á útivelli og þar með talidir tveir skráðir heimaleikir.