Nýtum kosningaréttinn!

Í fréttatilkynningu frá Höllu Tómasdóttur til Vestfirðinga hvetur hún þá til þess að nýta kosningaréttinn.

„Eins og ég fékk að upplifa um páskana er hvergi jafn skemmtilegt að vera og á Ísafirði. Bæjarhátíðin Aldrei fór ég suður, hefur nú fastan sess í hjörtum margra og ekki síður þeirra sem ekki búa á svæðinu.

Ég lít á Vestfirði sem mitt heimasvæði og var svo lánsöm að hitta í ferðinni margt af mínu fólki. Þá var gaman að ræða við ykkur á fundunum á Patreksfirði og í Bolungarvík. Takk aftur fyrir frábærar móttökur.

Síðan hefur tíminn flogið hratt og ævintýrin leynast á hverju horni. Það hefur verið ómetanlegt að finna þann meðbyr sem framboð mitt hefur notið síðustu daga. En hann dugar ekki einn og sér svo nú vil ég minna fólk á að nýta kosningaréttinn.

Við Björn þökkum hlýjar móttökur hvar sem við höfum komið, þær verða okkur ógleymanlegar og við munum varðveita vinsemd ykkar út lífið.

Kosningarétturinn er dýrmætur og ekki sjálfsagður. Margt ungt fólk er að nýta hann nú í fyrsta skipti og vona ég að þau hafi nýtt tímann vel til að kynnast því sem frambjóðendur hafa fram að færa.

Eigið dásamlegan kjördag!“

DEILA