Skutulsfjörður: Heitt vatn finnst í Tungudal

Frá borstæðinu í Tungudal. Mynd: Eggert Stefánsson.

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða hefur verið að bora eftir heitu vatni i Tungudal á Ísafirði síðustu daga og í gær var komið á heitavatnsæð á 460 metra dýpi sem skilar 7-10 ltr/sec af 55 gráðu heitu vatni samkvæmt því sem Hörður Christian Sigurðsson greindi frá.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri sagði þessi tíðindi vera jákvæða vísbendingu. Þetta væri góð byrjun en magnið væri um tíundi hluti þess sem þyrfti. Næsta skref verður að fóðra holuna efst og víkka hana og síðan verður hafist handa að nýju á frekari borunum og þá borað dýpra til þess að fá betri upplýsingar um það sem þarna leynist undir. Þar skiptir máli hvort vatnið hitni frekar og eins í hve miklu magni það er.

Gufustrókurinn stendur upp úr borholunni í gær.

Mynd: Hörður Christian Sigurðsson.

DEILA