Menntaskólinn á Ísafirði – 50 ára

Menntaskólinn á Ísafirðir fagnar í vor merkum áfanga í sögu skólans en 50 ár eru nú liðin síðan fyrstu nemendurnir útskrifuðust frá skólanum. Við brautskráningu frá skólanum í dag verður þessara merku tímamóta minnst.

Stofnun Menntaskólans á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 eftir langa baráttu heimamanna fyrir menntaskóla, baráttu sem má rekja a.m.k. aftur til ársins 1944. Helstu rök heimamanna fyrir stofnun menntaskóla á Ísafirði voru að jafna aðstöðu nemenda til skólagöngu. Ákveðinn áfangasigur náðist þegar leyfi fékkst til að reka framhaldsdeild á Ísafirði sem svaraði til 1. bekkjar í menntaskóla. Vestfirðingar héldu þó áfram að berjast fyrir fullgildum menntaskóla og í þeirri baráttu lögðu margir hönd á plóg og ljóst að samtakamáttur Vestfirðinga,  þrautseigja og þor skipti þar miklu máli. Barátta heimamanna bar loks árangur þegar tilkynnt var á haustdögum 1969 að menntaskóli yrði stofnaður á Ísafirði árið 1970. 35 nemendur innrituðust þá um haustið og vorið 1974 útskrifuðust 30 stúdentar við fyrstu brautskráningu skólans. Fyrstu útskriftarnemarnir lögðu grunninn að velgengni skólans og síðan þá hafa hátt í 2.500 nemendur útskrifast og haldið áfram í frekara nám eða út í atvinnulífið.

Mikilvæg stoð í vestfirsku samfélagi

Það skiptir miklu máli fyrir samfélag eins og Vestfirði að fólk hafi tækifæri til að mennta sig í heimabyggð, kjósi það svo. Það stuðlar að því að ungt fólk geti haldið tengslum við rætur sínar og að þau sem eldri eru geti stundað nám án þess að fara langt frá heimahögunum.

Frá stofnun hefur Menntaskólinn á Ísafirði verið hornsteinn í samfélaginu hér fyrir vestan. Skólinn hefur ekki aðeins veitt góða menntun öll þessi ár heldur átt sinn þátt í að styrkja samfélagið með fjölbreyttu námsframboði. Nú, eins og þegar skólinn var stofnaður, er skólinn mikilvæg stoð í vestfirsku samfélagi og mikilvægt að standa vörð um hlutverk hans.

Skólinn í dag

Tímar hafa sannarlega breyst frá því að skólinn var stofnaður fyrir rúmri hálfri öld síðan. Á þeim tíma var menntun öðruvísi háttað og aðstæður samfélagsins allt aðrar. Nú erum við stödd á tímum mikilla tækniframfara og aukinna krafna um fjölbreytni og aðlögunarhæfni í menntun. Skólinn hefur aðlagast þessum breytingum með ýmsu móti svo sem með því að innleiða nýja tækni í kennslu, þróa nýjar námsleiðir og veita nemendum stuðning í samræmi við nútímakröfur. Með framboði á námi og í kennslu leitast skólinn við að mæta þörfum nemenda sem best, hvort sem nemendur eru í dagskóla, dreif- eða fjarnámi sem og þörfum samfélagsins.

Fjölbreytt nám og fjölbreyttur nemendahópur

Á vorönn voru 483 nemendur við nám í skólanum sem stunduðu nám í dagskóla, dreifnámi með vinnu og fjarnámi á 17 námsbrautum. Alls stunduðu 40% nemenda nám í verk-, starfs- og listnámi en í dagskóla var hlutfallið 51%. Nemendahópur skólans er fjölbreyttur og af því erum við stolt. Í Menntaskólanum á Ísafirði erum við alls konar og fögnum fjölbreytileikanum.

Við brautskráningu frá skólanum í dag verður 61 nemandi brautskráður af 14 námsbrautum; grunnnámi málm- og véltæknigreina,  húsasmíði, iðnmeistaranámi, lista- og nýsköpunarbraut, matartækni,  skipstjórnarnámi A og B, stálsmíði, vélstjórnarnámi A, starfsbraut, fjórum stúdentsprófsbrautum og íþróttasviði sem er í boði samhliða öllum brautum.

Gott skólaár að baki

Margt gott hefur átt sér stað á skólaárinu. Þar má sem dæmi nefna undirritun samninga milli sveitarfélaganna við Djúp, Árneshrepps, Reykhólahrepps og ríkisins um byggingu nýs verknámshús sem mun bæta alla aðstöðu til verknáms. Vonir standa til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári.

Heimavist skólans var vel nýtt í vetur og langt síðan jafnmargir nemendur bjuggu á vistinni. Bættar samgöngur við suðursvæði Vestfjarða hafa átt þátt í að fleiri nemendur frá Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði sækja nú skólann en verið hefur.

Í vetur fékk skólinn skólaþróunarstyrk til að fara í þverfaglegt verkefni um orkuframleiðslu þar sem m.a. er stefnt að því að setja upp sólarsellur við skólann. Verkefnið verður unnið með sérfræðingum Bláma og Orkubús Vestfjarða og gefur tækifæri til að samþætta námsgreinar og tengja saman nemendur úr ólíkum námsgreinum. Verkefninu er  ætlað er að auka skilning kennara og nemenda á því hvernig hægt er að nýta mismunandi orkugjafa til að draga úr umhverfisáhrifum og verður bæði hluti af þverfaglegum áfanga sem fer af stað í haust en sömuleiðis skapast möguleikar í hinum ýmsu áföngum til að tengjast verkefninu, bæði bóklegum og verklegum. Við erum afar þakklát fyrir þennan veglega styrk og hlökkum mikið til samstarfsins við Bláma og Orkubú Vestfjarða. Skólinn fékk sömuleiðis styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála til að skapa betra inngildandi samfélag innan skólans sem styður við fjölbreytileika.

Sífellt er unnið að því að þróa námsframboð við skólann í takt við þarfir samfélagsins og í vetur hefur verið hönnuð ný námsbraut við skólann sem hefur fengið nafnið hafbraut. Nám á brautinni leggur áherslu á að undirbúa nemendur undir störf í sjávartengdum greinum. Hefur þetta verkefni verið í unnið í samstarfi við fjóra aðra framhaldsskóla á landinu og fyrirtæki hér á svæðinu auk Vestfjarðarstofu. Stefnt er að því að innrita nemendur á brautina frá og með næsta hausti.   

Menntaskólinn á Ísafirði á í góðu samstarfi við fjölmarga framhaldsskóla á landinu. Skólinn á aðild að Samlandi sem er samstarfsverkefni 12 framhaldsskóla á landsbyggðinni, m.a. um fjarnám. Innan þess verkefnis er  sérstakt samstarf milli skólans, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskóla Austurlands um sjúkraliðanám og á vorönn var farið af stað með iðnmeistaranám í samstarfi við Verkmenntaskóla Austurlands.

Skólinn tekur sömuleiðis þátt í ýmsum samstarfsverkefnum undir merkjum Erasmus+. Í gegnum ýmis Evrópuverkefni hafa nemendur og starfsfólk skólans fengið tækifæri til að víkka sjóndeildarhringinn og stækka tengslanetið með því að heimsækja skóla í Evrópu sem og að taka á móti erlendum gestum til okkar.

Tækifæri til starfsþróunar eru mikilvægur þáttur í framþróun skólastarfs. Þann 1. mars var haldinn sameiginlegur starfsþróunardagur framhaldsskóla á Íslandi. Rúmlega 30 starfsmenn MÍ héldu til Reykjavíkur til að hitta annað starfsfólk framhaldsskóla, bera saman bækur, hlýða á áhugaverð erindi, skoða aðra framhaldsskóla og kynnast starfi þeirra. Mikil ánægja var meðal þátttakenda og heilmargt sem við  tókum með okkur frá þessum degi.

Félagslíf nemenda var í miklum blóma í vetur og ekki má vanmeta félagslega hluta þess að vera í framhaldsskóla. Margir og fjölbreyttir viðburðir voru haldnir og má þar nefna nýnemaball, körfuboltamót, kaffihúsakvöld, 1. des hátíð, jólaviku, páskabingó, árshátíð, lokaball og margt fleira. Klúbbastarfi var ýtt úr vör og hafa þó nokkrir klúbbar hafið starfsemi, m.a. borðtennis-, tónlistar- og spilaklúbbar. Hápunktur í félagslífi MÍ var að vanda hin árlega Sólrisuhátíð og uppsetning Sólrisuleikritsins. Má með sanni segja að leiksýning leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi hafi heldur betur slegið í gegn.

Nemendur náðu góðum árangri á ýmsum sviðum. Má þar nefna 2. sæti í nýsköpunarhraðlinum MEMA, lokaúrslit í fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla eftir vel heppnaða Vörumessu í húsnæði Vestfjarðastofu, úrslit í samkeppni Landverndar um bestu umhverfisfréttirnar og 16 liða úrslit í Gettu betur. Náðist þar að jafna besta árangur skólans hingað til og komast í sjónvarpssal. Þar steig líka á stokk hljómsveitin Paranoid og hlaut verðskuldaða athygli fyrir tónlistaratriði sitt.

Skólinn náði sömuleiðis góðum árangri í Stofnun ársins annað árið í röð. Í fyrra var skólinn hástökkvari ársins, þ.e. sú ríkisstofnun sem bætti starfsumhverfi starfsmanna mest árið 2022 og núna varð skólinn í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnanna. Skólinn hefur þar með hlotið sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Mannauðurinn er helsta auðlind skólans og við skólann starfar öflugt starfsfólk sem leggur sig mikið fram í störfum sínum.

Þakkir og hvatning

Við í Menntaskólanum á Ísafirði viljum nota tækifærið á þessum merku tímamótum í sögu skólans til að þakka öllum sem hafa stutt við skólann í gegnum tíðina – nemendum, foreldrum og forráðamönnum, starfsfólki, atvinnulífinu  og samfélaginu öllu. Án ykkar hefði þessi árangur ekki verið mögulegur.

Menntaskólinn á Ísafirði ætlar að halda áfram að vera leiðandi í menntun á Vestfjörðum. Þar þurfum við að standa saman vörð um skólann okkar og við skorum á Vestfirðinga alla að taka virkan þátt í að móta framtíð skólans svo hann megi halda áfram að vera stolt samfélagsins. Saman getum við tryggt að skólinn haldi áfram að vaxa og dafna.

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði

DEILA