Bretland: skoskur eldislax með mest útflutningsverðmæti af matvöru

Eldislax frá Skotlandi var á síðasta ári í efsta sæti af útfluttri matvöru frá Bretlandi hvað verðmæti snertir. Samkvæmt frétt á vefnum IntraFish var útflutningsverðmætið nærri 600 milljónir steringspunda eða um 100 milljarðar íslenskra króna. Framleiðsluverðmæti greinarinnar var heldur meira eða um 140 milljarðar króna, enda er Bretland sem innanlandsmarkaður býsna stór.

Skoska þingið hefur sett af stað úttekt á fiskeldinu þar sem meðal annars verður athugað hvernig gengið hefur að hrinda í framkvæmd leiðbeiningum frá 2018 um úrbætur sem varða umhverfismál, aðbúnað og heilsufar fiskanna, einkum lúsaálag og afföll.

Sérstök nefnd á vegum stjórnvalda, sem fer með atvinnu- og efnahag dreifbýlisins annast úttektina. Afföll eldisfiska hafa síðustu tvö ár verið með mesta móti. Nefndin mun halda fundi með hagsmunaaðilum svo sem eldisfyrirtækjum, fjárfestum, umhverfisverndarsamtökum og eftirlitsaðilum. Framkvæmdastjóri samtaka laxeldisins í Skotlandi fagna framtakinu og kveðst munu leggja áherslu á aðgerðir sem stuðla að þróun og frekari fjárfestingu í atvinnugrein sem framleiðir matvæli með einna lægsta kolefnisspori og geri hana enn álitlegri.

DEILA