Ný uppfærsla af smáforritinu Bara tala hefur litið dagsins ljós í kjölfar samnings sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gerði við fyrirtækið í byrjun árs.
Samningurinn við Bara tala kvað á um að aðgangur að starfstengdum orðalistum innan heilbrigðis-, félags- og umönnunargreina yrði ókeypis til fjögurra ára fyrir þau sem stunda nám, starfa eða hyggjast starfa í heilbrigðis- og umönnunargreinum á Íslandi.
Á þennan hátt yrði aðgengi stórbætt að einstaklingsmiðuðu og sveigjanlegu stuðningstæki til að læra og æfa íslensku.
Bara tala er smáforrit sem nýtist öllum sem vilja læra íslensku. Forritið er nokkurs konar stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, þar sem íslenskan er kennd í gegnum leik.
Nýja uppfærslan sem var kynnt í síðustu viku inniheldur meðal annars gagnvirka, starfstengda orðalista og persónulega þýðingarvél á fimm tungumálum: Ensku, spænsku, litháísku, úkraínsku og pólsku. Notendur geta nálgast stuðningsefni til að læra íslensku og æft sérsniðinn, starfstengdan orðaforða, út frá tali, hljóði og mynd, auk þess að sjá framgang sinn í rauntíma. Uppfærslan inniheldur þýðingarforrit sem getur umbreytt talmáli úr fyrrnefndum tungumálum yfir á íslensku. Notendur geta talað á sínu móðurmáli, smáforritið þýðir og sérstakur talgervill les upp setninguna á íslensku.
Í fyrstu atrennu er lögð áhersla á erlent starfsfólk á hjúkrunar- og dvalarheimilum til að efla öryggismenningu með bættri tungumálakunnáttu. Með lausninni mun erlent starfsfólk og starfsnámsnemendur eiga kost á að æfa sig í hagnýtri íslensku á sínu starfssviði, hvar og hvenær sem er.