Sameiningin: sveitarstjórarnir hætta á sunnudaginn

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar sýnar.

Á sunnudaginn verður til nýtt sveitarfélag á Vestfjörðum þegar sameining Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps gengur formlega í gildi. Þórdís Sif Sigurðardóttir , bæjarstjóri í Vesturbyggð segir aðspurð að umboð beggja sveitarstjóra/bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags fallir niður á í lok dags 18. maí n.k. Að þeim tíma loknum starfi hvorugt þeirra sem bæjarstjóri. Þórdís hefur störf um næstu mánaðamót sem bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs hjá Sveitarfélaginu Árborg.

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar Sýnar, sem fékk hreinan meirihluta í bæjarstjórnarkosningunum segir að fyrsti bæjarstjórnarfundur nýrrar bæjarstórnar verði 29. maí og var á honum að heyra að hann gerði sér vonir um að þá yrði búið að taka ákvörðun um næsta bæjarstjóra. Páll sagði í samtali við Bæjarins besta að verið væri að vinna að ráðningu þessa dagana. Hins vegar væri ekkert stress því formlega séð tæki staðgengill bæjarstjóra í Vesturbyggð við starfinu þangað til bæjarstjóri hefur verið ráðinn. Auk þess sagðist Páll gera ráð fyrir að fá að nýta krafta fráfarandi sveitarstjóra eitthvað áfram og í bígerð væri að annar þeirra í yrði í starfi fyrst um sinn.

Þá upplýsti Páll að fráfarandi oddviti Tálknafjarðarhrepps, Lilja Magnúsdóttir myndi starfa í hlutastarfi sem ritari heimastjórnanna fjögurra.

Aðspurður um hvers vegna Ný sýn hefði unnið góðan sigur í kosningunum svaraði hann því til að hann teldi það vera út á eigið ágæti framboðslistans. Kjósendur hefði trúað listanum til góðra verka. Vatnsdalsvirkjun hefði af málefnum verið það mál sem mest var rætt meðal almennings og mjög skiptar skoðanir hefðu verið um það. Hins vegar taldi hann óvíst hvað það hefði ráðið miklu um afstöðu kjósenda til framboðslistanna þótt þeir hefðu haft ólíka stefnu til málsins.

DEILA