Skilgreining á fjarheilbrigðisþjónustu

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði

Frumvarp heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um heilbrigðisþjónustu var samþykkt á Alþingi í gær.

Þar með hefur verið leidd í lög skilgreining á hugtakinu fjarheilbrigðisþjónustu, ásamt frekari skýringum á þeirri þjónustu, tæknilausnum, verkefnum og verklagi sem falla undir hugtakið. Fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu.

Því er mikilvægt að gildandi löggjöf taki mið af þeirri þróun og einnig að öryggi viðkvæmra persónulegra upplýsinga við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu sé tryggt.

Hugtakið fjarheilbrigðisþjónusta er í lögunum skilgreint sem nýting stafrænnar samskipta- og upplýsingatækni til að veita heilbrigðisþjónustu þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma.

Undir þetta falla þættir eins og fjarsamráð, fjarvöktun, myndsamtöl, netspjall og hjálparsími og er nánar fjallað um inntak þessara þátta í lögunum.

Velferðartækni fellur einnig þarna undir og er þá vísað til notkunar á stafrænum tæknilausnum í heilbrigðisþjónustu sem styður búsetu einstaklinga í heimahúsi.

DEILA