Varðskip aðstoðar við flutning á fóðurpramma

Varðskipið Freyja var í gær á Vestfjörðum og aðstoðaði við flutning á fóðurpramma Arnarlax milli fjarða.

Pramminn Steinborg hefur verið við kvíastæðið í Hringsdal í Arnarfirði en nú fer það í reglubundna hvíld eftir eldislotu og í staðinn verður tekið í notkun nýtt kvíastæði í Patreksfirði, sem nefnist Vatneyri.

Þar er verið að undirbúa útsetningu eldisseiða sem verða þar líklega næstu 18 mánuði þar til sláturstærð verður náð. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hve mörg seiði verða sett út en ætla má að þau geti verið um 1 milljón. Uppskeran af slíkri eldislotu verður að öllu stóráfallalausu um 4.500 tonn sem gefa um 5 milljarða króna í útflutningsverðmæti.

Gísli Hermannsson skipstjóri hjá Sjótækni tók þessar myndir af flutningnum.

Varðskipið Freyja í Arnarfirði í gær.

DEILA