Vesturbyggð: Minjasafn Egils Ólafssonar fékk ekki styrki

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar tók til afgreiðslu á síðasta fundi umsóknir um styrki til annarrar úthlutunar á þessu ári.

Þrettán umsóknir voru teknar fyrir. Tveimur var hafnað og öðrum tveimur var frestað en níu styrkir voru veittir.

Minjasafn Egils Ólafssonar var með þrjár umsóknir. Var einni hafnað og tveimur frestað. Hafnað var styrkumsókn til að bæta ásýnd og aðbúnað safngripa á Minjasafninu á Hnjóti. Sótt var um 82.358 króna styrk. Þá var frestað að afgreiða umsókn um 150 þús kr. styrk til varðveislu og viðgerðar á bátnum Skúla Hjartarsyni BA 250 sem og 150 þús kr. styrk til varðveislu og viðgerðum á bátnum Mumma BA 21. Var menningar- og ferðamálafulltrúa falið að óska eftir gögnum um nýtingu síðasta styrks fyrir verkefninu.

Foreldrafélag Patreksskóla sótti um styrk fyrir fræðslu Siggu Daggar kynfræðings fyrir nemendur mið- og unglingastigs allra skóla á sunnanverðum Vestfjörðum auk foreldra. Sótt var um 150 þúsund króna styrk.

Menningar- og ferðamálaráð taldi umsóknina ekki samræmast reglum sjóðsins og hafnar styrkbeiðninni.

DEILA