Arctic Fish: framlegð með besta móti

Kort úr uppjöri fyrsta ársfjórðungs sem sýnir starfsemi Arctic Fish.

Arctic Fish sendi frá sér á föstudaginn upplýsingar um afkomu og rekstur á fyrsta fjórðungi 2024. Fram kemur að slátrað var 2.500 tonnum af laxi og að horfur séu á því að framleiðsla ársins verði 10 þúsund tonn. Framlegðin, það er tekjur að frádregnum rekstrarkostnaði, varð 576 kr./kg. sem er það besta sem náðst hefur í rekstrinum hingað til. Varð framlegðin mun meiri nú en á sama tíma í fyrra þegar hún varð 321 kr./kg. Eldið hefur gengið vel í vetur og ástand fisksins er gott. Fjárfesting á fyrstu þremur mánuðum varð um 750 m.kr. einkum í búnaði fyrir nýtt kvíastæði.

Framleiðslan dróst verulega saman frá sama tíma í fyrra þegar slátrað var 4.866 tonnum og heildarframleiðslan síðasta árs var 11.900 tonn.

Heildarefnahagsreikningur fyrirtækisins er um 35 milljarðar króna og þar af eru 39% eigið fé.

Verð hluta er um 60 norskar krónur á hlut og hefur hækkað um 14% síðasta mánuðinn eftir verulega lækkun á síðasta ári, en er þó enn um þriðjungi lægra en var fyrir 12 mánuðum.

Fyrirtækið hefur leyfi fyrir 29.800 tonna lífmassa í 13 kvíastæðum í sex fjörðum á Vestfjörðum. Þar af eru 27.000 tonn leyfi fyrir frjóum eldislaxi. Nýlega var endurnýjað 7.800 tonna leyfi í Patreksfirði og Tálknafirði og nýtt leyfi fyrir 8.000 tonnum í Ísafjarðardjúpi.

DEILA