Framsókn: opinn fundur á Ísafirði á morgun

Framsókn í Ísafjarðarbæ stendur fyrir opnum fundi á morgun kl 11 í Skúrnum við Húsið.

Alþingismennirnir Halla Signý Kristjánsdóttir og Ágúst Bjarni Garðarsson verða gestir fundarins.

Af nógu er að taka þegar spurt er um umræðuefni fundarins og Ágúst Bjarni sagði að fyrir Vestfirðinga væru augljóslega meðal stóru málanna fiskeldi og samgöngumálin. Nú væri fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp um lagareldi sem ætlað væri að festa sjókvíaeldið í sessi. Afstaða Framsóknar væri alveg skýr: fiskeldið væri komið til þess að vera og það væri þegar orðið mikilvæg atvinnugrein.

Varðandi samgöngumálin minnti Águst Bjarni á að í tíð Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins sem ráðherra málaflokksins hefði Dýrafjarðargöngin verið tekin í notkun og önnur stór verkefni nýr vegur um Dynjandisheiði og einnig um Gufudalssveit hefðu hafist og væri komin á lokastig. Hins vegar væru enn mörg mikilvæg verkefni óunnin á Vestfjörðum og að ríkisstjórnin hefði fullan hug á að halda áfram að bæta stöðu Vestfjarða.

DEILA