Hönnun nýs húsnæðis leik- og grunnskóla er lokið. ARKIBYGG og Gingi teiknistofa hafa unnið að hönnuninni í samráði við starfshóp um byggingu nýs húsnæðis fyrir leik- og grunnskóla á Bíldudal, eins var starfsfólki Tjarnabrekku og Bíldudalsskóla gefinn kostur á að gera athugasemdir við teikningarnar og koma með hugmyndir að breytingum. Í starfshópnum eru Jón Árnason, Þórdís Sif Sigurðardóttir, Arnheiður Jónsdóttir, Magnús Árnason og Lilja Rut Rúnarsdóttir.
Útboðsgögn verða tilbúin fyrir lok júní og verður verkið þá boðið út. Áætlað er að framkvæmdir hefjist síðsumars. Í samræmi við tímalínu verkefnisins verður húsnæðið tilbúið til notkunar við upphaf skólaársins 2025-2026.
Drög að samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna Bíldudalsskóla verða tekin fyrir á næst fundi bæjarráðs. Samkomulagið felur í sér að skólastarfsemin fari ekki fram á Dalbraut 2, aðeins verði heimiluð takmörkuð nýting á húsnæðinu og því verði hætt við að gera sérstakan varnargarð til að verja húsið.
Ríkissjóður leggur sveitarfélaginu til tæplega 137 m.kr. vegna flutnings starfseminnar.