Ísafjarðarbær: umsögn tók nærri 9 mánuði

    Frá Gemlufalli.

    Sýslumaðurinn á Vestfjörðum óskaði 9. ágúst 2023 eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um umsókn breytingar á gildandi rekstrarleyfi fyrir rekstur gististaðar í Dýrafirði. Erindið var lagt fyrir bæjarráð 29. apríl 2024, hartnær níu mánuðum síðar og umbeðin umsögn loks afgreidd.

    Um er að ræða gistiþjónustu á Gemlufalli og óskaði eigandinn 1. ágúst 2023 eftir því við sýslumanninn á Vetsfjörðum að fá hús nr. 3 og nr. 4 skráð sem gistieiningar. Sýslumaðurinn sendi erindi til umsagnar til nokkurra aðila, þar á meðal Ísafjarðarbæjar og óskaði eftir svörin eigi síðar en 45 dögum síðar.

    Slökkvilið Ísafjarðarbæjar svaraði um hæl 11. ágúst og féllst á að leyfi yrði veitt fyrir 17 manns. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða skoðaði aðstæður strax 23. ágúst 2023 og sagði ekkert því til fyrirstöðu að veita umbeðið leyfi, en sendi ekki svar sitt til Sýslumanns fyrr en 13. mars 2024.

    Ísafjarðarbær sendi svar 9. nóvember 2023 og sagði að ekki yrði séð að umrædd hús væru skráð í fasteignaskrá fyrir viðeigandi landnúmer. Ekki hefði borist umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum tveimur húsum né fyrir byggingarheimild. Sækja þyrfti um byggingarheimild og skila inn aðaluppdráttum.

    Það var svo loks 23. mars 2024 sem byggingarfulltrúi veitti jákvæða umsögn og hún var lögð fyrir bæjarráð rúmu mánuði síðar sem gerði ekki athugasemdir við breytingar á rekstrarleyfi Jóns Skúlasonar fyrir gistiheimilið Gemlufall í Dýrafirði.

    DEILA