Viðtalið: Kristján Þór Kristjánsson

Ég er fæddur 1977 og ólst upp í Hnífsdal.  Ég er mikill Hnífsdælingur en hef búið á Ísafirði síðan ég flutti heim eftir háskólanám 2005.  Pabbi Kristján Kristjánsson er Hnífsdælingur og mamma Kristín Þóra Gísladóttir er Bolvíkingur.  Ég kynni mig yfirleitt núna sem gott sameiningartákn fyrir sameiningarsinna við djúp.  Hnífsdælingur búsettur á Ísafirði og ættaður úr Bolungarvík.  Kristján Jónsson afi minn er svo frá Eyri í Seyðisfirði svo ég hef tengingar í Súðarvíkurhrepp líka :).  Ég er giftur Salome Elínu Ingólfsdóttur næringarfræðingi og grunnskólakennara og eigum við fjögur börn.  Salome er ættuð úr Furufirði en svo skemmtilega vill til að þegar Guðmundur Árnason afi hennar flyst úr Furufirði þá kaupir hann Fremra Ós í Bolungarvík af afa mínum Gísla Valdimarssyni.  

Ég starfa í dag sem Hótelstjóri á Hótel Ísafirði.  Starfið er ákaflega lifandi og skemmtilegt.  Ferðamennska á Vestfjörðum er mjög árstíðarbundin og er mest krefjandi að finna jafnvægi í rekstri milli sumars og veturs þegar ferðamannastraumur er minni.  Það er nauðsynlegt fyrir okkur hér fyrir vestan að ná að lengja ferðamannatímabilið og búa til þjónustu og afþreyingu hér yfir vetrarmánuðina.  Hótel Ísafjörður er flott fyrirtæki með drífandi og metnaðarfulla eigendur og starfsfólk.  Á síðasta ári fórum við í miklar breytingar á veitingastaðnum og móttökunni.  Byggðum viðbyggingu ásamt því að umturna allri neðri hæðinni.  Breytingarnar tókust ótrúlega vel og erum við mjög ánægð með þær.  Ég held að framtíðin sé björt í ferðamennsku hér fyrir vestan.  Við höfum yfir að búa mikilli náttúrufegurð sem hefur vakið athygli erlendis og þurfum við að halda áfram að þróa okkar þjónustu og afþreyingu.

Bæjarfulltrúinn Kristján?  Jú ég hef verið bæjarfulltrúi síðustu 6 ár hér í Ísafjarðarbæ eftir að hafa óvænt komið inn í þetta fyrir kosningar 2018. Í dag er ég oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ.  Þessi tími hefur verið mjög lærdómsríkur og er ég enn að læra.  Rekstur sveitarfélags er oft á tíðum flókinn og verður ekki lærður á einni nóttu.   Pólitíkin er líka oft á tíðum skrítin og þar er maður einnig enn að læra.  Við í Framsókn á Ísafirði höfum leitast við að vinna að góðum málum í sátt fyrir sveitarfélagið.  Það er engum til heilla að vera sífellt að leita leiða til koma pólitísku höggi á andstæðinga eða hægja á góðum málum í pólitískum tilgangi.  Við teljum okkur vera að breyta pólitísku andrúmslofti, pólitískri umræðu og pólitísku samstarfi í Ísafjarðarbæ og teljum við það strax farið að bera árangur.  Það er nauðsynlegt að það sé vinnufriður í bæjarstjórn og gott samstarf milli minnihluta og meirihluta.  Þó svo að það séu ekki sátt um öll mál þá þarf að mínu mati að vera hægt að ræða málin og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu í sátt,  samfélagi og íbúum til heilla.

Ég veit nú ekki hvað ég á að segja um helstu áhugamál.  Félagsstörf hafa oft tekið mikinn tíma frá mér svo þau hafa þróast í að vera mín helstu áhugamál.  Ég hef fylgt krökkunum mínum mikið í íþróttaiðkun.  Ég var formaður barna- og unglingaráðs í knattspyrnu í um 10 ár og þegar ég hætti þar þá var elsta dóttir mín komin á meistaraflokksaldur svo í dag er ég að vinna að því að hér verði starfandi meistaraflokkur í kvennaflokki í fótbolta.  Það er algjör nauðsyn að mínu mati að stelpur eigi sömu tækifæri og strákar að spila fyrir sitt lið í meistaraflokki.  

Önnur áhugamál hjá mér er litla sauðfjárbúið mitt á Góustöðum sem ég vinn með nokkrum félögum mínum, nú fer að líða að skemmtilegasta tímanum sem er sauðburður, svo hef ég einstaklega gaman af því að ganga á fjöll hér í nágrenninu þegar sumar gengur í garð.

DEILA