Minning: Guðmundur H. Garðarson

Guðmundur H. Garðarson.

MINNINGARORÐ

1. varaforseta Alþingis, Oddnýjar G. Harðardóttur,

á þingfundi 22. apríl 2024 um

Guðmund H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismann


Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni hér í Reykjavík 18. apríl síðastliðinn, 95 ára að aldri.

Guðmundur var fæddur í Hafnarfirði 17. október 1928, sonur hjónanna Garðars Svavars Gíslasonar kaupmanns og Matthildar Guðmundsdóttur húsmóður. Hann lauk stúdentsprófi 1950 og viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands fjórum árum síðar. Eftir það stundaði hann framhaldsnám í hagfræði og viðskiptagreinum í Þýskalandi, Englandi og í Bandaríkjunum. Hann starfaði fyrst eftir nám fyrir Iðnaðarmálastofnun en var lengst hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Guðmundur hóf ungur afskipti af félagsmálum og varð formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur árið 1957. Hann var í forystu þess í rúma tvo áratugi og átti sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands í 10 ár. Hann var einnig meðal forvígismanna Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og var fyrsti formaður samtakanna. Guðmundur var í hópi þeirra sem börðust fyrir afnámi einokunar ríkisins á rekstri ljósvakamiðla á 8. og 9. áratugnum. Maður nýrra tíma heita æviminningar hans. Hann kom víða við á langri ævi, var valinn til trúnaðarstarfa á mörgum sviðum og var farsæll í störfum. Guðmundur var tvívegis þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í fyrra sinn 1974–1978 og á ný 1987–1991. Hann tók enn fremur oft sæti sem varaþingmaður á tímabilinu 1967–1994, sat alls á 18 löggjafarþingum.

DEILA