Suðureyri: engin bensínstöð

Frá Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Engin bensínafgreiðsla er á Suðureyri eftir að einu stöðunni var lokað þar sem hún stóðst ekki kröfur.Eftir þá lokun er aðeins afgreidd díselolía á báta og vinnuvélar á höfninni.

Erindi um þetta frá íbúa á Suðureyri var lagt fram á síðasta fundi bæjarráðs til kynningar.

Vakin er athygli á því að ýmis tæki eru í notkun sem nota jarðefnaeldsneyti. Tæki sem verður ekki ekið í gegnum göngin til að sækja eldsneyti á næstu stöð. Þetta eru td sláttuvélar og aðrar smávélar, neyðarafstöðvar björgunarsveitarinnar, vélsleðar og fjórhjól.

Eldsneytið kemur „undantekningalaust í skottinu á bílum í gegnum einbreiðann legg Vestfjarðaganganna og það sem ekki passar á tækið sem á sopann endar inní bílsskúr, geymslu eða iðnaðarhúsnæði. Þessir flutningar passa sennilega illa í áhættugreiningu slökkviliðis og vegagerðarinnar fyrir göngin.“

Þá segir: „Veturinn 2020 var ágætis áminning að hvert þorp þarf að vera sjálfbjarga í nokkar daga og hefur ýmislegt þegar verið gert t.d. með þjálfun fólks í sjúkraflutningum osfrv og er það vel. En það hefði td verið áhugavert að sjá hvernig hefði gengið að tappa af fólksbílum bæjarins yfir á neyðarbúnað ef það hefði þurft að nota hann í einhvern tíma á meðan fjörðurinn var lokaður.“

Hvatt er til þess að fundin verði lausn á þessu máli og að sett verði upp dæla í þorpinu.

DEILA