Deildarmyrkvi á sólu í kvöld

Mánudaginn 8. apríl sést deildarmyrkvi á sólu frá Íslandi öllu, ef veður leyfir. Frá Reykjavík sést allur myrkvinn en frá Austurlandi sest sólin á meðan hann stendur yfir.

Tunglið hylur um og yfir 40% af sólinni frá Íslandi séð en í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada verður almyrkvi. Til að sjá deildarmyrkvann þarf að nota hlífðarbúnað, til dæmis sólmyrkvagleraugu.

Í Reykjavík hefst sólmyrkvinn kl. 18:49:25 þegar sól er lágt á lofti í vestri.

Myrkvinn er í hámarki kl. 19:39:59 en sólin er þá aðeins tæplega 6 gráður yfir sjóndeildarhring, svo lágt á lofti að gæta þarf þess að háar byggingar eða tré skyggi á. Deildarmyrkvanum lýkur rétt fyrir sólsetur kl. 20:28:35. Við hámark hylur tunglið á tæplega 47% sólar. 

Frá Egilsstöðum hefst deildarmyrkinn k. 18:50:16. Við hámark kl. 19:38:14 hylur tunglið tæp 42% sólar. Þá er sólin aðeins tæplega 3 gráður yfir sjóndeildarhring. Sólin sest svo kl. 20:12 áður en deildarmyrkvanum lýkur. Frá Austurlandi sést því deildarmyrkvað sólsetur en til að sjá það þarf að koma sér fyrir þar sem fjöll skyggja ekki á.

Í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada sést almyrkvi sem hefst við sólarupprás í suðurhluta Kyrrahafsins kl. 16:40 að íslenskum tíma. 

Fyrstu 85 mínúturnar liggur almyrkvaslóðin aðeins yfir hafi, fjarri öllu byggðu bóli. Almyrkvinn nemur fyrst land í Mexíkó klukkan 18:05 en myrkvinn er mestur og lengstur þaðan kl. 18:17:20 og stendur yfir í 4m og 28s.

Næsti almyrkvinn eftir sólmyrkvann 8. apríl 2024 verður 12. ágúst 2026. Sá almyrkvi verður sjáanlegur frá vestasta hluta Íslands. Er það janframt fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní árið 1433. 

Frá þessu er sagt á vefnum stjornufraedi.is

DEILA