Erfiðasti og hverfulasti ferðafélaginn í lífinu er tíðarandinn.
Umhverfið setur honum skráðar og í flestum tilfellum óskráðar reglur eða lög sem fylgja skal.
Nútíminn er að dómi tíðarandans það besta og forðast skal allar breytingar því vafasamt er að nokkur mannlegur máttur geti skapað neitt betra. Allt sé best og fullkomnast í núinu.
Þeim sem undan tíðarandanum víkjast hverju sinni hefur farnast misjafnlega í lífinu. Fæstir komast undan slíku ósárir. Til eru hins vegar fræ sem blómgast best við þessar aðstæður.
Eitt slíkt var Úlfar Ágústsson sem í dag er jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju.
Hann bjó í nútímanum en hugði ávallt til framtíðarinnar og lét tíðarandann ekki þvælast fyrir sér.
Allt frá barnæsku gat hann á ekkert annað treyst en sjálfan sig og sína. Tók slaginn við lífið og tilveruna á Ísafirði.
Fetaði í fyrstu kunnuglega slóð í fiskinum en fann svo fjölina sína.
Hann gerði hana trausta. Að þjóna samborgurum sem kaupmaður. Hvenær sem á þurfti að halda. Alla tíð. Farsæld í kaupmennsku hlýtur að staðfesta ákveðið umburðarlyndi og samkennd kaupmannsins í garð samborgaranna.
Úlfar var um margt öðruvísi og jafnvel skrítinn maður. Að mati tíðarandans.
Það var ekki boðlegt mannlegu eðli i þéttbýli að verslun opnaði fyrr en klukkan níu að morgni. Á sama hátt var það auðvitað augljóst brot gegn almannaheill að matvöruverslun skyldi opin eftir klukkan sex síðdegis. Það sá hver maður. En ekki Úlfar.
Svo var auðvitað andstætt almennu heilbrigði að seld væri mjólk í steinsteyptu húsi að sunnanverðu við Hafnarstrætið á Ísafirði því að norðanverðu við götuna var og er steinsteypt Kaupfélagshús. Þar gat heilbrigðið einungis búið. Það var ekki öllum gefið að selja mjólk.
Hér hefur fátt eitt verið nefnt af sakaskrá Úlfars og baráttu hans við tíðarandann.
Ávallt leitandi og um leið ögrandi.
Ferðamennska á Vestfjörðum. Hótelrekstur á Ísafirði. Bátasiglingar á Ísafjarðardjúpi. Samkeppni í flugi. Borað í fjöll. Akfærir vegir. Siglingar um norðurhöf. Kláfar upp um fjöll og firnindi. Að ekki sé nú minnst á Tónlistarskólann.
Svo var það þetta viðkvæma orð í hugum margra.
Frelsið.
Það var ekki að vefjast fyrir honum. Það skyldi bara standa. Frelsi til orðs og æðis. Að þjóna fólki ávallt þegar á þurfti að halda. Án annarra afskipta.
Frelsi til þess að útvarpa, þegar enginn var til þess, setti hann á sakamannabekk. Það var honum að vísu þungbært um stund en um síðir fagnaðarefni. Hann vissi innst inni að þá var hann á réttri leið. Hver varð síðan dómur tímans?
Af öllu þessu framtíðarbrölti var hann dæmdur af sumum en umborinn af flestum.
Mitt í sínum eigin önnum lagði hann nánast öllu lið í nálægð. Fátt eða ekkert var honum óviðkomandi. Ávallt gjöfull og traustur. Frá vöggu til grafar.
Vald tíðarandans getur verið skjól fordóma og heft framfarir.
Nú um stundir fæst tíðarandinn ekki um það hver, hvar og hvenær afhent skuli vara, líkt og áður, heldur miklu heldur hvað hver og einn hugsar og segir. Það sem verra er að mjög hefur nú þrengt að umburðarlyndinu.
Þar er því mikið verk að vinna í minningu Úlfars Ágústssonar.
Halldór Jónsson fyrrverandi starfsmaður Hamraborgar