Þann 30 mars sl. voru 90 ár frá stofnun Björgunarsveitarinnar Tinda í Hnífsdal. Af því tilefni er boðið til afmælisveislu sunnudaginn 7. apríl nk. kl. 15:00 í Félagsheimilinu í Hnífsdal.
Byrjað verður á formlegri dagskrá, í framhaldi að því verður boðið upp á kaffi og með því, það verður einnig hægt að spreyta sig á allskonar æfingum, skoða aðstöðuna okkar og fara í kassaklifur.
Hér fylgir hluti af texta sem er orðrétt upp úr fundargerðabók frá 30. mars 1934:
Árið 1934 föstud. 30.mars var haldinn opinber borgarafundur í ungmennafélagshúsinu í Hnífsdal.
Fundarefni: stofnun slysavarnarsveitar í Hnífsdal.
Fundinn setti Ingimar Finnbjörnsson formaður, en hann tilnefndi sem fundarritara Einar Steindórsson.
Fundarstjóri hóf umræður og benti á þá nauðsyn, að í Hnífsdal yrði stofnuð slysavarnarsveit svo sem í öðrum sjávarplássum á Vestfjörðum. Einar Steindórs mælti ennfremur eindregið með stofnun slysavarnarsveitar fyrir Hnífsdal, og mættu Hnífsdælingar ekki vera eftirbátur annarra útgerðarplássa hér í nágrenninu um liðsinni við björgunarmálin.
Að því loknu var borin upp tillaga um stofnun slysavarnarsveitarinnar og var hún samþykkt í einu hljóði.
50 manns, karlar og konur, gjörðust á fundinum félagar í slysavarnarsveitinni.
Kosin stjórn fyrir sveitina: Ingimar Finnbjörnsson formaður. Einar Steindórsson ritari og frú Margrét Halldórsdóttir féhirðir.
Í varastjórn voru kosnir: Kristján Jónsson skólastjóri, Alfons Gíslason og Hjörtur Guðmundsson.
Rætt um fjársöfnun til ágóða fyrir „Björgunarskútusjóð Vestfjarða“. Samþykkt var tillaga frá Páli Pálssyni um að kjósa 5 manna nefnd til þess að hafa forustu um fjársöfnun í áðurnefndu skini.
Nefndina skipa: Frú Ragnheiður Rögnvaldsdóttir, Páll Pálsson útvegsb. Ingibjörg Guðmundsd. ungfrú, Kristján Jónsson skólast. og Ingólfur Jónsson verkam.
Fundargerðarbókin með stofnfundargerðinni.