Ísafjörður: kennarar vilja bæta loftgæði í grunnskólanum

Grunnskólinn á Ísafirði.

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í síðustu viku var lagður fram  undirskriftarlisti kennara við Grunnskóla Ísafjarðar þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að bæta loftgæði í skólanum.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs um viðhald í skólanum kemur fram að skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði upplýsti í janúar síðastliðnum um veikindi starfsfólks í stofum 102 og 103, sem eru stofurnar næst Grundargötublokkinni.
Þrjú sýni voru tekin í stofu 102 sem er stofa á jarðhæð og snýr út að Grundargötu, niðurstöður úr þeim sýnum voru neikvæðar, þ.e. að ekki greindist mygla í rými 102. Samhliða þessum sýnatökum var farið í rakaskimun á mannvirkinu, í heild sinni. Niðurstaða rakaskimunar benti til raka í stofu 108 og hefur stofan verið lagfærð og tekin í gagnið að nýju.

Í gömlu panelstofunni nr. 216 var tekið sýni úr byggingarhluta og greindust ummerki um myglu í dúk en ekki ummerki um myglu í kjarnanum. Nú standa yfir aðgerðir í panelstofunni, þ.e. stofa 216, panellinn hefur verið fjarlægður og verið er að fjarlægja einangrunarplast í lofti.

Næstu verkþættir sem tengjast Grunnskólanum á Ísafirði, eru eftirfarandi:
Uppbygging á Panelstofu, gólfefni, kerfisloft, lýsing og endurnýjun á loftaeinangrun.
Endurnýjun allra glugga sem snúa að Austurvegi (langhlið meðfram Sundhöll)
innkaupum á gluggum var lokið á haustmánuðum 2023
Endurnýjun á Þakdúk ofan til við glugga sem verður skipt út á sumarmánuðum
Anddyri við Austurveg lagfæra bólgur í gólfi.

Bæjarráðið fól sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að funda með starfsfólki Grunnskólans á Ísafirði og kynna framkvæmdir og viðhald sem fyrirhugað er í skólanum. Vinna við könnun á loftgæðum í skólanum er þegar hafin.

DEILA