Miðstöð menntunar og skólaþjónustu tekur til starfa

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um nýja þjónustustofnun og viðamiklar breytingar á menntakerfinu í upphafi kjörtímabils

Þann 1. apríl sl. tóku gildi ný lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Um er að ræða nýja þjónustu- og þekkingarstofnun sem starfar í þágu barna og ungmenna á sviði menntamála.

Stofnunin þjónustar leik-, grunn- og framhaldsskóla um land allt með áherslu á gæði menntunar og skólaþjónustu.

Með gildistöku laganna var Menntamálastofnun lögð niður og færðust ýmis verkefni yfir til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Meðal þeirra verkefna eru:

  • Afgreiðsla og útgáfa leyfisbréfa kennara, náms- og starfsráðgjafa og bókasafns- og upplýsingafræðinga.
  • Veiting undanþága til lausráðninga í kennslustörf.
  • Móttaka tilkynninga um ráðningar kennsluréttindanema.
  • Veiting viðurkenninga til einkaskóla á framhaldsskólastigi.
  • Staðfesting þjónustusamninga sjálfstætt rekinna skóla.
  • Eftirlit með skólastarfi og ytra mat.
  • Ábyrgð á alþjóðlegum verkefnum, t.d. PISA, EURYDICE og TALIS.

Ítarlegri upplýsingar um verkefnin og fyrirkomulag þeirra verða birtar á vef Stjórnarráðsins á næstunni.

Þá verður dreifibréf sent til allra grunn- og framhaldsskóla landsins, skólaskrifstofa og sveitarfélaga þar sem kynntar verða breytingar á afgreiðslu undanþága til kennslustarfa.

DEILA