ÍSÍ hefur úthlutað styrkjum úr Ferðasjóði íþróttafélaga vegna ferðakostnaðar íþrótta- og ungmennafélaga vegna þátttöku í fyrirfram skilgreindum styrkhæfum mótum ársins 2023.
Til úthlutunar að þessu sinni voru 123,9 milljónir króna. Til sjóðsins bárust 243 umsóknir frá 118 íþrótta- og ungmennafélögum úr 24 íþróttahéruðum vegna 2.949 ferða í 25 íþróttagreinum.
Heildarupphæð umsókna var 653.006.285,- krónur en umsækjendur skrá einungis beinan ferðakostnað í umsóknir, ekki gistingu eða uppihald. Þess má geta að skráður gistikostnaður, sem er valkvæð skráning í umsóknir til sjóðsins, var ríflega 97 milljónir króna.
Styrkirnir eru greiddir út beint til viðkomandi íþrótta- og ungmennafélags, skv. umsóknum.