Heilbrigðisráðherra hefur stofnað undirbúningshóp til að koma á fót EMT (Emergency Medical Team) viðbragðssveit á Íslandi.
Ákvörðun um stofnun hópsins er tekin að undangengnu samráði í ríkisstjórn.
EMT viðbragðssveitir eru virkjaðar ef válegir atburðir eiga sér stað sem valda almannavarnaástandi, s.s. vegna stórra hópslysa, farsótta, hópsýkinga eða náttúruhamfara. Þær eru mannaðar læknum, hjúkrunarfræðingum og stuðningsfólki sem starfa víðsvegar um landið.
Willum Þór heilbrigðisráðherra segir jarðhræringar síðustu mánuði á Reykjanesskaga og nýlegt strand skemmtiferðaskips við Grænland undirstrika þörf fyrir EMT viðbragðssveit á Íslandi: „Verði sveitin stofnuð hér á landi getur hún sinnt verkefnum um allt land með sérþekkingu á verkefnum almannavarna og orðið leiðandi á sviði heilbrigðisþjónustu á vettvangi á neyðartímum.
Sveitin gæti til að mynda aðstoðað við að koma sjúklingum í viðeigandi úrræði, eða til að sinna heilbrigðisþjónustu á vettvangi meðan beðið er eftir liðsinni frá öðrum þjóðum. EMT sveitin gæti þá einnig sinnt aðstoð vegna válegra atburða erlendis.“