Geirþjófsfjörður: heilsusetur skipulagt á Krosseyri

Krisseyri í Geirþjófsfirði. Mynd: Náttúrustofa Vestfjarða.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt deiliskipulag fyrir heilsusetur á eyðijörðinni Krosseyri í Geirþjófsfirði í Arnarfirði og fer það nú í auglýsingu. Jarðareigendur hafa hug á að nýta sér sérstöðu kyrrðar og friðsældar í þessu einangraða og sérstaka umhverfi. og reisa á jörðinni heilsusetur, þar sem fólk getur komist frá því ysi og þysi sem er í nútímasamfélagi. Geirþjófsfjörður er ekki í vegasambandi en hægt er að komast í Trostansfjörð, sem er næsti fjörður við Geirþjófsfjörð. Ofan af veginum á Dynjandisheiði má sjá í Geirþjófsfjörð og ganga þaðan niður.

Krosseyri fór í eyði árið 1945 en var lengi nytjuð frá Bíldudal.

Deiliskipulagssvæðið er um 4.2 ha að stærð og er staðsett á Krosseyri við Geirþjófsfjörð og upp hlíðina frá henni. Á jörðinni er skráð 77,4 fm íbúðarhús byggt 1936.

Innan byggngarreits nr 1 er heimilt að stækka húsið,sem þar er, þannig að það verði allt að 200 fm. Á reitnum er einnig heimilt að reisa allt að 50 fm geymslu.

Á byggingareit nr. 2, sem er um 1000 fm að stærð, er heimilt að reisa allt að 200 fm hús, sem fyrst og fremst er til ferðaþjónustu. Á byggingareit nr. 3, sem er um 20.000 fm að stærð, er heimilt að reisa allt að 4 litla (< 20 fm) gistikofa (einingar) Á byggingareit nr. 4, sem er um 23.500 fm að stærð, er heimilt að reisa tvö frístundahús sem mega vera allt að 120 fermetrar hvort. Byggingareitir nr. 5 og 6, eru um 300 fm hvor að stærð. Á þeim er heimilt að reisa allt að 50 fm bátaskýli.

 Fyrir liggja umsagnir frá Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Náttúrfræðistofnun Íslands sem og fornleifaskráning fyrir svæðið.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að deiliskipulagið boði mikla uppbyggingu á Krosseyri sem muni raska gróðri, ásamt því að hafa varanleg áhrif á ásýnd svæðisins og landslag þar sem eyrin er vel sýnileg frá mörgum stöðum við Suðurfirði. Náttúrufræðistofnun gerir ekki frekari athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi fyrir Krosseyri en áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum á síðari stigum málsins gerist þörf á því.

Krosseyri.

Geirþjófsfjörður í Arnarfirði.

DEILA