Alþingi: lagt til að lögfesta eldisgjald

Patrekshöfn.

Innviðaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á hafnalögum. Meðal tillagna í frumvarpinu er að fjölgað verði hafnagjöldum og bætt við svonefndu eldisgjaldi. Ákvæðið verði svohljóðandi: Eldisgjald af eldisfiski, þ.m.t. eldisseiðum, sem alinn hefur verið í sjókvíum eða ætlaður er til slíks eldis, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum.

Fyrir eru skipagjöld, vörugjöld, hafnsögugjöld, leigugjald, leyfisgjald, lóðargjald, festargjald, sorpgjöld, vigtar- og skráningargjald, umsýslugjald og  gjöld fyrir endursölu á vatni og rafmagni og kostnaði er því fylgir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að fiskeldisfyrirtæki eigi í viðskiptum við hafnir víðs vegar um landið. Ýmiss konar skip í slíkum rekstri nýta hafnirnar í störfum sínum og geta sum fyrrnefndra gjalda átt við eftir þeirri þjónustu sem veitt er hverju sinni. Einn þátturinn í starfsemi fiskeldisfyrirtækja varðar flutning eldisfisks um hafnir, þ.e. umskipun, lestun og losun.

Hafnir hafa byggt á ákvæði um laganna aflagjald. Þá segir í greinargerðinni: „Sum fiskeldisfyrirtæki hafa mótmælt lögmæti slíkrar gjaldtöku með þeim rökum að heimildin nái samkvæmt orðanna hljóðan til afla sjávarútvegsfyrirtækja en ekki til eldisfisks frá fiskeldisfyrirtækjum. Notkun á höfnum hefur í för með sér slit á hafnarmannvirkjum og kröfur um endurbætur og uppbyggingu hafnarmannvirkja í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Með frumvarpi þessu er farin sú leið að í stað aflagjalds sem hingað til verið grundvöllur gjaldtöku hafna af eldisfiski, m.a. með samningum á grundvelli 4. mgr. 17. gr. laganna, komi sérstakt gjald, eldisgjald sem sérstaklega taki til eldisfisks.“

Arctic Fish hefur gert samning við Bolungavíkurhöfn um greiðslu aflagjalds af lönduðum eldisfiski til slátrunar. Arnarlax hefur greitt Vesturbyggð aflagjald samkvæmt tiltekinni gjaldskrá, en mótmælti hækkun gjaldsins og hefur ekki greitt hækkunina. Höfðaði Vesturbyggð mál á hendur fyrirtækinu vegna þess sem ekki var greitt, en Hérðasdómur Vestfjarða sýknaði Arnarlax af kröfunni, þar sem fiskeldisfyrirtæki væru ekki sjávarútvegsfyrirtæki og eldisfiskur væri ekki sjávarafli og því væri ekki heimilt að innheimta aflagjald af afurðinni. Vesturbyggð hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar.

Í gildandi ákvæði laganna segir að miða skuli við að gjaldtaka standi undir rekstri hafnarinnar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, afskriftum, kostnaði við endurnýjun hafnarinnar og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun hafnarinnar. Í frumvarpinu segir um hið nýja gjald að ekki sé kveðið á um með hvaða móti hafnir skuli meta veitta þjónustu, þ.e. hvaða einingar skuli miðað við í gjaldskrá og er það sett í hendur hverrar hafnar fyrir sig að ákveða á hvaða grunni gjald er ákveðið.

DEILA