Bíldudalur: auglýsa nýja deiliskipulagstillögu fyrir skóla og íþróttir

Frá Bíldudal. Íþróttamiðstöðin Bylta blasir við. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir skóla, íþrótta- og þjónustusvæði á Bíldudal. Meginmarkmið deiliskipulagsins er að skilgreina lóð fyrir nýjan grunn- og leikskóla á Bíldudal ásamt því að búa til heildstætt skóla-, íþrótta- og þjónustusvæði.

Vegna íbúafjögunar síðustu 10 ára á Bíldudal er aukin þörf fyrir leikskóla- og grunskólaplássi í byggðarlaginu. Íbúar voru 177 árið 2013 en voru 278 í fyrra 2023. Fjölgunin nemur 57% á aðeins áratug.

Í skipulagstillögunni er gert ráð fyrir nýrri byggingu fyrir leikskóla og grunnskóla við Hafnargötu og að tjaldsvæðið verði fært.

Á reitnum B er fyrirhuguð skólabygging. Reiturinn er 4376 fermetrar að stærð og er byggingin 800 fermetrar á einni hæð. Á reitnum A er núverandi íþróttamiðstöð.

Í greinargerð segir að umhverfisáhrif tillögunnar séu jákvæð að því leiti að sameina eigi leikskólann og grunnskólann. Verið sé að bregðast við aukna þörf sem leiði af íbúafjölgun.

DEILA