Ísafjarðarbær setur sér málstefnu

Fyrir fund bæjrstjórnar á morgun, fimmtudaginn 21. mars liggur tillaga að málstefnu fyrir sveitarfélagið sem bæjarráðið hefur samþykkt fyrir sitt leyti

Innviðaráðuneytið lagði til í september síðastliðunum að sveitarstjórnir mótuðu sér mástefnu og drög voru lögð fyrir bæjarráð í janúar á þessu ári sem voru svo sent  til umsagnar til menningarmálanefndar, fræðslunefndar, íþrótta- og tómstundanefndar, og velferðarnefndar. Að fengnum umsögnunum tók bæjarráðið fyrir málið að nýju og gekk frá því til bæjarstjórnar.

Í upphafsorðum málstefnunnar segir að vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, sé lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar. Þá segir:

„Allar almennar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins skulu, auk íslensku, einnig vera til á ensku og öðrum tungumálum eftir því sem kostur er. Tryggja skal réttindi fólks af erlendum uppruna í þjónustu og samskiptum við yfirvöld sveitarfélagsins, með því að bjóða þeim sem ekki geta skilið eða tjáð sig á íslensku, endurgjaldslausa túlkaþjónustu, í samræmi við verkferla um túlkaþjónustu.“

Starfsfólk Ísafjarðarbæjar skuli leitast við að nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema í sérstökum aðstæðum sem krefjist þess að starfsfólk noti önnur tungumál t.d. í upplýsingamiðlun til erlendra ferðamanna, í boðuðum viðtölum í skólum og félagsþjónustu við fólk með annað móðurmál en íslensku. Auk þess skuli starfsfólk kalla eftir aðkomu túlka þegar nauðsynlega er talin þörf á í samráði við næsta yfirmann.

Allar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins, útgefið efni, fundargerðir og önnur gögn skuli vera á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku, auk erlendra tungumála ef þess er talin þörf.

Íslenska skuli vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða Ísafjarðarbæjar.

Þau sem koma fram fyrir hönd Ísafjarðarbæjar skuli tala og rita vandað mál og sýna vinsemd og virðingu í öllum samskiptum og þjónustu. „Eigi það við um öll tungumál, íslensku sem önnur. Vandað mál er markvisst og í samræmi við málvenjur, í viðeigandi málsniði og ritað í samræmi við gildandi reglur og réttritun.“

Reglurnar munu taka gildi frá og með 21. mars að fengnu samþykki bæjarstjórnar.

DEILA