Strandasýsla: binda vonir við virkjanir og strandveiðar

Út er komin skýrsla sem unnin var á vegum þriggja landshlutasamtaka, þar á meðal Fjórðungssambands Vestfjarða, um leiðir til að styrkja byggð í sex fámennum sveitarfélögum. Þar á meðal eru fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum, Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Strandabyggð.

Skýrsluhöfundar benda á tækifæri sem þeir sjá í sveitarfélögunum og geti hindrað að þjónustustig lækki. Í Strandasýslu er bent á Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem er að komast á framkvæmdastig og Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði sem er á athugunarstigi. Í desember 2023 fannst heitt vatn á Drangsnesi í Kaldrananeshreppi sem gæti þrefaldað getu hitaveitunnar þar. Í desember 2023 hóf Orkubú Vestfjarða borun eftir heitu vatni á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð.

Um áhrif strandveiðar segir í skýrslunni:

„Strandveiðar skipta miklu fyrir minnstu hreppana, Árneshrepp (47 íbúar) og Kaldrananeshrepp (116 íbúar). Sátt um hlutdeild strandveiða í heildarafla yrði lyftistöng fyrir byggðarlögin. Árið 2023 nam afli strandveiðibáta 4,8% af heildarafla þorsks. Þótt veiðarnar standi aðeins skamman tíma ár hvert hindra þær að þjónustustig lækki svo í byggðarlögum að fólk kjósi að flytja alfarið þaðan.“

Kræklingarækt

Þá leggja skýrsluhöfundar til að unnið verði að ræktun á kræklingalirfum sem festar verði á reipi í Króksfirði í Reykhólahreppi og Steingrímsfirði eftir að lirfurnar hafa dafnað og þroskast í þrjá mánuði í
ræktunarstöð á landi við bestu skilyrði. Í sjónum stækkar skelin og verður að endanlegri vöru rúmu ári síðar.

Vísað er til þess að kræklingarækt er sjálfbært, vistvænt sjávareldi og að FAO spáir því að spurn eftir kræklingi vaxi áfram og eldi á honum verði æ mikilvægara til að bregðast við aukinni neyslu um heim allan.

Þörungarækt

Loks er lagt til að búa í haginn fyrir þörungavinnslu á þeim stöðum þar sem hún er talin hagkvæmust. Í því skyni verði gott orðspor þörungavinnslunnar á Reykhólum nýtt til að laða að vísindamenn og fjárfesta.

Nýjustu tölur um verðmæti þörungavinnslu í heiminum í Global Algae Market Report 2023- 2027 gera ráð fyrir að árið 2027 verði verðmæti heimsmarkaðs þörunga um 6,8 milljarðar dollara.

DEILA