Fiskeldissjóður: sækja um 740 m.kr. styrk

Vatnsveitan í Bolungavík verður í Hlíðardal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sex vestfirsk sveitarfélög sækja um styrki úr Fiskeldissjóði samtals að upphæð 740 m.kr.

Ísafjarðarbær sækir um 267 m.kr. styrk til sex verkefna og Vesturbyggð sækir um 248 m.kr. til átta verkefna.

Bolungavíkurkaupstaður er með tvær umsóknir og sækir um 50 m.kr. Sótt er um 25 m.kr. styrk til þess að bæta aðgengi almennings að hafnasvæðinu og sömu fjárhæð til að bora neysluvatnsholur fyrir nýja vatnsveitu.

Súðavíkurhreppur er með þrjár umsóknir. Sótt er um 45 m.kr. styrk til líkamsræktaraðstöðu, til þess að koma upp heitum pottum 15.850.000 kr. og 1.5 m.kr. í mengunarvarnarbúnað fyrir Súðavíkurhöfn.

Tálknafjarðhreppur sækir um 80 m.kr. styrk í fráveitu frá þéttbýlinu.

Loks er Strandabyggð með eina umsókn. Sótt er um 43,5 m.kr. styrk til uppbyggingar hreinsistöðva.

DEILA