Ísafjarðarbær: afturkalla úthlutaðar lóðir

Tunguhverfi Ísafirði.

Fyrirtækið Landsbyggðarhús ehf fékk úthlutað lóðunum Bræðratungu 2-10 á Ísafirði í febrúar 2023. Meðal skilmála var að lóðarumsókn falli úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

Í byrjun febrúar sendi fyrirtækið erindi og óskaði eftir að fá að flytja lóðina yfir á nýtt félag og um leið frest til að klára byggingu þar til næsta veturs. „Við áætlum að vera búin að byggja raðhúsið í september á þessu ári en gott að hafa smá svigrúm eða til desember til að klára verkið“ segir í erindi þeirra.

Segir ennfremur að fyrirtækið sé komið í samstarf við öfluga aðila varðandi byggingu á 5 íbúða raðhús á lóðinni í sumar. Byrjað verði á þeirri vinnu næsta vor eða um leið og snjóa leysir.

Í fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar segir að „félagið hyggst ekki fara í framkvæmdir við Bræðratungu“ og bókað er að „Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að afturkalla lóðarúthlutun Landsbyggðarhúsa ehf. við Bræðratungu 2-12 (áður 2-10) í Tunguhverfi á Ísafirði.“

DEILA