Þorsteinn Masson, framkvæmdastjóri Bláma er í viðtalinu að þessu sinni. Bæjarins besta fékk hann til þess að segja frá Bláma og sjálfum sér.
Hvað er Blámi
Markmið Bláma er að er að ýta á eftir orkuskiptaverkefnum, auka orkutengda nýsköpun og styðja við verðmætasköpun á grunni vistvænna orkunýtingar Vestfjörðum.
Við hjá Bláma höfum lagt mikla áherslu á að vinna náið með fyrirtækjum og sveitarfélögum á svæðinu við fjármögnun og skipulagningu orkuskiptaverkefna og verkefna sem auka verðmætasköpun á svæðinu. Við erum afar stolt a samstarfi okkar við fiskeldisfyrirtækin, Menntaskólann á Ísafirði og sveitarfélögin á svæðinu en saman höfum við dregið vel yfir 200 milljónir inn á svæðið í gegnum Orkusjóð og aðra sjóði sem sýnir að vestfirskt samfélag ætlar sér stóra hluti þegar kemur að orkuskiptum.
hverjir standa að því og hvað gerir það.
Blámi var stofnaður 2021 og er í eigu Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Vestfjarðastofu og Umhverfis -, Orku og Loftlagsráðuneytisins. Eigendur og bakjarlar Bláma hafa lagt áherslu á að raungera verkefni, koma hlutum á hreyfingu og tengja saman misunandi aðila með sameiginleg markmið.
Dæmi um verkefni sem við höfum komið að eru uppsetning hleðslustöðva, landtengingar brunnbáta og fóðurpramma ásamt innleiðingu á rafhlöðukerfum.
Við höfum unnið náið með Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun við að skoða miðlægar varmadælur sem geta dregið úr olíunotkun við húshitun þegar skerðanleg orka er ekki tiltæk. Svo erum við að vinna að spennandi nýsköpunarverkefni með Súðavíkurhreppi sem snýst um að nota nýja tækni til að hita vatn á köldum svæðum.
Jafnframt erum í metnaðarfullu verkefni með Orkubúi Vestfjarða og Menntaskólanum á Ísafirði við að koma upp sólarrafhlöðum sem nýttar verða til kennslu og til orkuframleiðslu fyrir verkmenntahúsið.
Hver er Þorsteinn, hvað hefur hann haft fyrir stafni og hver eru t.d. helstu áhugamál hans?
Ég er rúmlega fertugur Vestfirðingur, búsettur í Bolungarvík, uppalinn á Ísafirði og á dásamlega tvíbura, Má Óskar og Valdísi Rós.
Ég veit fátt eins skemmtilegt og að leika mér í vestfirskri náttúru á hjóli, skíðum eða á veiðum, sérstaklega í góðra vina hóp. Ég á tvær systur, fósturbróðir og yndislega foreldra sem eru mér miklar fyrirmyndir og vinir.
Ég er heppinn með samstarfsfólk og í gegnum vinnuna hjá Bláma fæ ég að vinna með mikið af flinku og skemmtilegu fólki. Það er sérstaklega ánægjulegt að gera unnið að verkefnum sem styrkja og efla samfélagið hér í villta vestrinu enda er frábært að búa hérna og mikil tækifæri til frekari verðmætasköpunar með því að nýta staðbundnar auðlindir og vera sjálfum okkur nóg þegar kemur að raforku.