Háskóladagurinn: fiskeldisdeild Hóla sprungin

Haskólasetur Vestfjarða kynnti nám við setrið á háskóladeginum. Astrid Fehling, kennslustjóri stóð vaktina. Hún er frá Hamborg í Þýskalandi en hefur búið hér á landi í 14 ár og talar lýtalausa íslensku. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Háskóladagurinn var í Menntaskólanum á Ísafirði í gær. Allir sjö háskólarnir á Íslandi kynntu þar námsframboð sitt en háskólarnir eru; Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn og Listaháskóli Íslands. Auk þess voru fulltrúar frá Háskólasetri Vestfjarða með kynningu.

Aðsókn var gríðarlega góð og fullt út úr dyrum. Greinilegt er að Vestfirðingar höfðu mikinn áhuga á að kynna sér nám sem í boði er í skólunum.

Háskólinn á Hólum kynnti meðal annars nám í fiskeldis- og fiskalíffræðideild. Þar er boðið upp á 90 eininga grunnnám og sagði fulltrúi Háskólans að aðsóknin í fiskeldisdeildina hefði margfaldast á síðustu tveimur árum. Nú væru 45 nemendur og segja mætti að deildin væri sprungin. Hins vegar væri engum neitað um nám og einfaldlega fundin lausn svo allir sem vilja gætu stundað námið.

Hún var brosmild stúlkan sem kynnti Háskólann á Hólum enda rífandi aðsókn í fiskeldisnámið.

Háskólinn í Reykjavík sendi þrjá starfsmenn til þess að kynna fjölbreytt námsframboð skólans og voru þeir með ítarlega kynningu á margvíslegum námsbrautum.

Starfsmenn Háskólans í Reykjavík komu fljúgandi vestur og mátti heyra á þeim að flugið hefði verið óvenjulegt.

Stærsti háskóli landsins Háskóli Íslands var einnig með góða kynningu á því námi sem í boði er í skólanum.

DEILA