Ísafjarðarbær: ráðið í nýtt starf á umhverfis- og eignasviði

Eyþór Guðmundsson. Mynd: Ísafjarðarbær.

Eyþór Guðmundsson hefur verið ráðinn sem deildarstjóri á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar. Frá mars 2019 hefur hann starfað sem innkaupa- og tæknistjóri hjá sveitarfélaginu. Aðrir umsækjendur voru Smári Karlsson, skrifstofufulltrúi og Þórður Jóhann Guðbrandsson, húsasmiður.

Starfið var auglýst fyrir áramót og rann umsóknarfrestur út 9. janúar, en var svo framlendur til 14. febrúar. Bæjarins besta óskaði 21. febrúar eftir upplýsingum um umsækjendur og ráðningu en svör bárust ekki fyrr en í gær.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að það hafi verið „að auglýsa nýtt starf deildastjóra á umhverfis- og eignasviði í ljósi aukinna umsvifa og fjölgunar verkefna á sviðinu. Það var jafnframt verið að auglýsa í starf skipulagsfulltrúa, en fyrrum skipulagsfulltrúi er kominn til annarra starfa.“

Í auglýsingu Ísafjarðarbæjar um starfið segir: „Boðið er upp á sveigjanlegan vinnutíma með ýtrustu vinnustyttingu (36 stunda vinnuviku). Önnur hlunnindi eru sérstakur stuðningur vegna fjarnáms, íþróttastyrkur og afsláttur af árskorti í sund.“

Ákvörðun um hið nýja starf var ekki lögð fyrir bæjarráð né kynnt þar.

DEILA