Sextán störf á nýjum svæðisstöðvum íþróttahreyfingarinnar

Svæðastöðvarnar byggja á samhljóða tillögu ÍSÍ og UMFÍ og felur í sér að komið verði á fót átta stöðvum með tveimur stöðugildum á hverju svæði með muni þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.

Tillagan var samþykkt á þingi ÍSÍ í fyrravor og á þingi UMFÍ í fyrrahaust. Samhliða því var gerð breyting á greiðslu fjármagns til íþróttahéraða frá ÍSÍ og UMFÍ sem felur í sér að af því fjármagni sem fer til íþróttahéraða þá sé 85% fjármagnsins greitt til þeirra miðað við opinberar tölur um íbúafjölda 0-18 ára. 15% af fjármagninu fara til reksturs sameiginlegra svæðastöðva.  

Um miðjan desember tryggði Mennta- og barnamálaráðherra einnig 400 milljónir króna til verkefnisins næstu tvö árin. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 milljónir króna af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðastöðva og 70 milljónir króna til Hvatasjóðs. Á hverri svæðastöð verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni. 

Við undirbúning svæðastöðvanna hefur verið unnið náið með grasrótinni í íþróttahreyfingunni um allt land.

Óskað var eftir tilnefningum frá íþróttahéruðum og upp úr því varð til hópur fólks með einum fulltrúa frá hverju svæði; fulltrúa frá Austurlandi, Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu sem dæmi.

Guðný Stefanía Stefánsdóttir hefur verið fulltrúi íþróttahéraða á Vestfjörðum í undirbúningsvinnunni. 

DEILA