Snædís Karen fær að snúa heim á Blönduós

Snædís Karen var sett í jólabúning árið 2013 þegar hún var til húsa á Hnjúkabyggð 33.

Húnahornið greinir frá því að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi samþykkt beiðni byggðarráðs Húnabyggðar um að uppstoppaða bjarndýrið sem fellt var 17. júní árið 2008 við Hraun á Skaga verði til sýnis í stjórnsýsluhúsinu á Blönduósi.

Ísbirnan, fékk nafnið Sædís Karen á sínum tíma, er nokkuð stór þó hún sé lítið dýr miðað við önnur dýr úr Austur-Grænlandsstofninum.

Hæð hennar er um 1,30 metrar og lengdin um 1,75 metrar. Ísbirnan gekk á land 16. júní og hélt sig í æðarvarpinu á Hrauni. Tilraun var gerð til þess að ná henni lifandi enn það tókst ekki og var dýrið því fellt. Birnan er talin hafa verið 12-13 ára og að hún hafi komið upp þremur lifandi húnum.

Að fá Sædísi Karen til baka er mikilvægur þáttur í því að efla og setja sterkari stoðir undir ferðamannaiðnaðinn í sveitarfélaginu, að mati byggðaráðs.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær ísbirnan verður flutt aftur á Blönduós, en byggðarráð vonar að það verði sem fyrst

DEILA