80 ára afmæli lýðveldisins: hátíðadagskrá á Hrafnseyri

Hrafnseyri.

Forsætisráðherra hefur skipað sérstaka afmælisnefnd sem vinnur að mótun hátíðardagskrár af því tilefni að 17. júní næstkomandi verða 80 ár liðin frá lýðveldisstofnuninni á Þingvöllum. Þá gerir nefndin tillögur um hvernig minnast megi 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar sé miðað við viðtekið ártal

Í nefndinni eru fulltrúar forsætisráðuneytis, skrifstofu forseta Íslands, menningar- og viðskiptaráðuneytis, Alþingis og Þingvallaþjóðgarðar. Formaður er Margrét Hallgrímsdóttir.

Afmælisnefndin hefur sent sveitarstjórnum landsins bréf og þar kemur fram að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum efnir til afmælisdagskrár þar sem landsmenn eru hvattir til að heimsækja Þingvelli þar sem gestum er boðið að skoða sýninguna Hjarta lands og þjóðar og helgina 15.-16. júní verður fjölbreytt menningardagskrá á Þingvöllum, í Almannagjá og víðar um þjóðgarðinn.

Hátíðahöldin ná hámarki 17. júní, þegar 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, með dagskrá og kórasöng um allt land.

Þann 16. og 17.júní verður hátíð á Hrafnseyri með dagskrá í tilefni lýðveldisafmælisins og 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar og verður sjónum beint að landnámsminjum á Hrafnseyri.

Þá verður efnt til menningarviðburða um allt land.

Á vefsíðunni www.lydveldi.is má finna nánari upplýsingar um hátíðarhöldin.

Óskað eftir samstarfi við sveitarfélög landsins í tengslum við hátíðardagskránna með miðlun og hvatningu til þátttöku eins og hentar best á hverjum stað.

Erindið var lagt fram til kynningar á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

DEILA