Samfylkingin: vel sóttur fundur á Ísafirði

Kristrún Frostadóttir, formaður í forgrunni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Almennur stjórnmálafundur Samfylkingarinnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á miðvikudagskvöldið var vel sóttur. Framsögumenn voru Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Arna Lára Jónsdóttur, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og ritari Samfylkingarinnar.

Þetta var þriðji fundur þeirra þennan dag en áður höfðu verið haldnir fundir á Þingeyri og Bíldudal. Í gærdag var svo fjórði fundurinn í Einarshúsi í Bolungavík.

Yfirskrift fundanna var atvinna og samgöngur. Fram kom í máli Örnu Láru að orkuskortur væri á Vestfjörðum og það þyrfti að virkja. Að hennar mati væri ekki líklegt að fengjust 15 – 20 milljarðar króna til þess endurnýja Vesturlínu og því væri virkjunarframkvæmdir óhjakvæmilegar. Taldi hún að alla kosti þyrfti að skoða en taldi Vatnsdalsvirkjun álitlega og sagðist styðja að aflétta friðunarskilmálum svo unnt væri að gera umhverfismat.

Fundarmenn lögðu margar spurningar fyrir forystumenn Samfylkingarinnar. Var gengið eftir afstöðu flokksins til kröfu smábátaeigenda um 48 daga strandveiðirétt og sagðist Kristrún Frostadóttir vera opin fyrir því. Töluvert var rætt um fiskveiðar og auðlindagjaldtöku almennt. Kristrún sagði að fók vildi sanngjarnt auðlindagjald í sjávarútvegi og fiskeldi. Sagðist Kristrún hallast að því að hækka veiðigjaldið og einnig væri rétt að hækka skattlagningu á miklar eignir.

Orkumál bar töluvert á góma og raforkukort á Vestfjörðum. Um samgöngumál var kallað eftir Súðavíkurgöngum. Formaður Samfylkingarinnar sagði að fyrir lægi tillaga um röðun jarðganga þar sem Súðavíkurgöng eru í 5. sæti og að ekki stæði til að breyta þeirri niðurröðun.

Vel var mætt á fundinn. Mynd: Samfylkingin.

DEILA