MÍ fær styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála

Styrkþegar ásamt ráðherra og formanni Innflytjendaráðs.

Menntaskólinn á Ísafirði fékk í gær styrk að fjárhæð 2,2 m.kr. úr þróunarsjóði innflytjendamála.

Verkefnið heitir Við öll! Menntaskólinn á Ísafirði sem fjölmenningarlegt samfélag. Í lýsingu segir að það felist í því að halda vinnustofur fyrir nemendur og skólasamfélagið í heild með það að markmiði að dýpka skilning og auka meðvitund skólasamfélagsins á því hvað felst í því að vera hluti af inngildandi og fjölmenningarlegu samfélagi.  Er þetta annað árið í röð sem skólinn hlýtur styrk úr sjóðnum.


Heiðrun Tryggvadóttir, skólameistari segir að skólinn fagni þessari styrkveitingu mjög og við „hlökkum til við að hefjast handa og halda áfram að skapa inngildandi og fjölmenningarlegt samfélag í skólanum.“

Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir styrk samtals 50 milljónir króna. 

Í fréttatilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„ Ég óska öllum styrkþegum til hamingju og hlakka til að fylgjast með framhaldinu. Málefni innflytjenda eru afar þýðingarmikil og hafa kannski aldrei verið mikilvægari en nú. Við höfum stóraukið framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála og það gleður mig mjög að sjá þá miklu grósku sem er hér á landi í margvíslegum verkefnum og rannsóknum sem tengjast málaflokknum.“

DEILA