Alþingi: biðja um skýrslu um gjaldtöku af fiskeldi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Halla Signý Kristjánóttir, alþm og níu aðrir alþingismenn hafa lagt fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá matvælaráðherra um gjaldtöku af sjókvíaeldi.

Í skýrslunni komi fram:
     a.      yfirlit yfir heildargjaldtöku af sjókvíaeldi frá árinu 2018 og undir hverju tekjunum var ætlað að standa, sem og hvernig þeim tekjum hefur verið skipt á milli ríkis og sveitarfélaga,
     b.      hvernig tekjur af gjaldtöku hafi skilað sér til uppbyggingar á nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og hvort og þá hvernig tryggt sé að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga í samræmi við kröfur um sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.

Í greinargerð sem fygir með skýrslubeiðninni til skýringar á henni segir að sjókvíaeldi sé „nýleg atvinnugrein hér á landi sem hefur byggst hratt upp undanfarinn áratug. Fari framleiðsla í hámarksmagn samkvæmt burðarþolsmati svæða sem fiskeldinu eru afmörkuð er talið að útflutningsverðmætið verði nær 65 milljörðum kr. Í dag er útflutningsverðmæti um 40 milljarðar kr. árlega og starfa um 600 manns í atvinnugreininni. Fjárfesting upp á tugi milljarða króna er bundin í greininni og frekari fjárfesting bíður þess að fá leyfi til rekstrar. Útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda. Innviðir þurfa að vera fyrir hendi til að styðja við uppbyggingu greinarinnar sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt greinarinnar og sem mestan ávinning af henni.“

Íbúafjölgun og uppbygging

Þá segir í greinargerð flutningsmanna að eldið sé stundað á Vestfjörðum og Austfjörðum og sveitarfélög þar sem hýsa þessa starfsemi hafi unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað.Um er að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla. Sveitarfélögin njóti þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist með hlutfallslegri fjölgun yngra fólks. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir fyrir sveitarfélög svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu. Því er mikilvægt að hugað sé að gjaldtöku af greininni með það að markmiði að styrkja nærsamfélögin.

DEILA